144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra til glöggvunar er rétt að rifja það upp að mestur þáttur umræðu okkar hér í þinginu 2007–2008 og í nefndinni var nákvæmlega um stofnanafyrirkomulag þróunarsamvinnunnar og pólitíska aðkomu að yfirstjórn hennar. Í þessu frumvarpi er bæði verið að breyta stofnanauppbyggingunni og pólitísku aðkomunni að stjórn stofnunarinnar án samráðs við aðra flokka á Alþingi. Það kalla ég að rjúfa þá pólitísku samstöðu sem verið hefur þvert á stjórnmálaflokka um fyrirkomulag þessara mála. Sú þverpólitíska samstaða var ítrekuð þegar hæstv. ráðherra sat með mér í utanríkismálanefnd á árinu 2012 þegar við gerðum ákveðnar breytingar á stjórnskipulagi málaflokksins.

Hér er því verið að leggja upp breytingar sem ekki hafa verið ræddar við aðra stjórnmálaflokka. Það er grundvallarbreyting á aðferðafræðinni. Þá tjóar lítið að vísa í greinargerð sem unnin hefur verið úti í bæ en hefur ekki verið rædd við hið pólitíska umhverfi. Ef menn vilja halda í þverpólitíska samstöðu við málaflokkinn þurfa þeir að sinna samráðinu. Það hefur ekki verið gert í þessu tilviki (Forseti hringir.) og þess vegna er sáttin rofin um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Ég vil spyrja ráðherra: Hvers vegna?