144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru þrjár leiðir sem höfundur skýrslunnar, sem við byggjum frumvarpið að mestu á, skoðaði. Ein leiðin var vissulega sú að færa alla starfsemina inn í stofnun, inn í ÞSSÍ. Niðurstaða hans var í raun í samræmi við eldri skýrslur, að betra væri að starfsemin færi inn í ráðuneytið. Það var því sú tillaga sem við fórum með í þingið.

Hver var seinni spurningin aftur hjá hv. þingmanni? (KJak: Eftirlitið.) Já, eftirlitið. Eftirlitinu er þannig háttað í dag að til dæmis innan ÞSSÍ er ákveðin eftirlitsdeild, eftirlitsaðili sem fer yfir þau verkefni sem þar eru. Svo má heldur ekki gleyma því að áður en þessi umræða byrjaði hafa menn rætt um ákveðna stofnun sem heitir Ríkisendurskoðun. Að sjálfsögðu er Ríkisendurskoðun sífellt að taka út starfsemi ÞSSÍ og þá ráðuneytisins. Nýlega er nú búið að skoða ráðuneytið. Við munum að sjálfsögðu tryggja að eftirlit með verkefnum verði áfram mjög gott. (Forseti hringir.) Og sem betur fer má segja að það eftirlit sem hingað til hefur verið haft (Forseti hringir.) með verkefnum ÞSSÍ undanfarin ár hefur verið mjög (Forseti hringir.) gott og hefur margítrekað (Forseti hringir.) komið fram að verkefnin hafa (Forseti hringir.) staðist alla skoðun.