144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom aðeins inn á þann umbúnað sem hér er lagður til um aðkomu þingsins að þróunarsamvinnu. Ég tel að þegar um er að ræða nefnd þar sem í sitja 15 aðilar og fundar samkvæmt frumvarpinu að lágmarki tvisvar á ári sé kannski ekki endilega verið að ætlast til mikillar vinnu af hálfu hennar. Ef maður er í nefnd sem fundar tvisvar á ári eru það yfirleitt svokallaðir upplýsingafundir þar sem farið er yfir það sem gert hefur verið en ekki endilega ætlast til mikillar stefnumótunar eða samtals. (Gripið fram í.) Nefndin hefur ekki nein völd samkvæmt frumvarpinu heldur er meira til ráðgjafar. Þannig að ég sé ekki að þetta dugi til þess að styrkja stöðu þingsins að þessu leyti. Ég er mikil áhugamanneskja um að styrkja stöðu þingsins og oft er það gert hreinlega óformlega þar sem þingmenn eru kallaðir til ráðslags í málum sem ekki heyra beint undir viðkomandi nefndir með formlegum hætti. Ég sé fyrir mér að utanríkismálanefnd þurfi að fara vel yfir þetta ráðslag.

Mér finnst jákvætt að kalla til aðila háskólasamfélagsins, aðila tengda atvinnulífinu og frjálsum félagasamtökum, í einhvern slíkan samráðsvettvang, en það tryggir ekki endilega að Alþingi Íslendinga taki málaflokkinn meira upp á sína arma. Hluti af rökunum sem eru færð fyrir þessu í skýrslunni, sem er grundvöllur tillögunnar, er auðvitað sú stefnubreyting sem hefur orðið í tíð núverandi ríkisstjórnar þegar horfið er frá samþykktri aðgerðaáætlun um þróunarsamvinnu og skorin niður framlög í stað þess að auka framlög sem var ætlunin. Hugsunin á bak við það sem er rætt þar um að auka þurfi aðkomu þingsins er auðvitað að tryggja stefnufestu í málunum þannig að svona rugl, segi ég nú bara, endurtaki sig ekki. Það verður ekki gert með einhverri samráðsnefnd sem fundar tvisvar á ári á upplýsingafundum.