144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:01]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um umhverfið, að við værum með lítil ráðuneyti og stærri stofnanir. Það er mismunandi eftir löndum og ef ég skil það rétt er menntamálaráðherra einmitt að plana að taka málefni út úr ráðuneytinu og setja í stofnun. Hv. þingmaður sagði að þarna virtist ekki neitt plan vera í gangi vegna þess að það gætu alveg verið rök fyrir því að styrkja ráðuneytin og að þau tækju að sér ákveðin verkefni. Maður veltir þá fyrir sér hvernig eftirlitinu með þeim verkefnum væri háttað, en það er úrlausnarefni í rauninni. Það sem vekur athygli hér er að eitt ráðuneyti gerir eitt og annað ráðuneyti gerir eitthvað allt annað. Það er eins og menn tali ekki saman eða að ekki sé stefna í þessum málum. Ég vil heyra eitthvað um það frá hv. þingmanni.