144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er í liði með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur því að mér finnst hæstv. ráðherra ekki hafa tekið þátt í umræðum. Við höfum lagt fram fjölmargar spurningar og það er einfaldlega rétt að hann hefur einu sinni stigið fram til að vera með að mínu mati dónalegar athugasemdir í garð eins þingmanns sem tók þátt í umræðunum. Við erum ekki að reyna að klekkja á hæstv. ráðherra eða biðja hann að koma í stríð við okkur um þetta mál, við erum að biðja hann um að svara einföldum spurningum. Það er nú allt og sumt. En það virðist vefjast mjög fyrir mönnum að gera það.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki hvað er snúið við það að svara spurningunni: Af hverju er ekki hægt að bíða eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar og þeirri úttekt sem þróunarsamvinnunefnd OECD er að vinna og ætlar sér að skila á næsta ári? Hvað er snúið við að svara þeirri spurningu? (Forseti hringir.) Ég óska (Forseti hringir.) eftir því að hæstv. ráðherra eða (Forseti hringir.) einhver sem þarf að vinna með málið í þinginu geri alla vega tilraun til þess.