144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er að teikna sig upp leiðinleg mynd varðandi þinglega meðferð mála hér. Fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra um daginn að hann teldi umræður í þingsal helst fara fram til þess að tefja mál eða tefja atkvæðagreiðslu um mál. Það er eins og það sé það sem stjórnarþingmönnum hafi verið kennt, það eru nú margir nýir þingmenn í stjórnarmeirihlutanum. (Gripið fram í.)

Hér var hv. þm. Kristján Möller með mikla þingreynslu að fara yfir að hann myndi ekki annað eins áhugaleysi stjórnarþingmanna á stjórnarfrumvörpum. Ég skil það vel, oft er það þannig í umræðum að ef maður er sáttur við mál þá lætur maður 1. umr. líða. En þegar augljóslega er pólitískur ágreiningur um mál er óeðlilegt að það sé enginn tilbúinn til þess að koma hér upp, verja málið og segja af hverju það njóti stuðnings (Forseti hringir.) beggja stjórnarflokkanna.