144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst skipta máli að oft eða yfirleitt þegar verið er að sameina svona stofnanir þá halda menn að þeir hafi einhvern fjárhagslegan ávinning út úr því. Hér segja menn að þeir muni ekki hafa það. Ég held að það sé einmitt rétt, að myndast geti einhver kostnaður sem skrifstofa fjármálaráðuneytisins reiknar ekki þarna inn, af því að auðvitað mun fólk hætta, það vilja ekki allir færa sig þarna yfir og það kemur eitthvað upp. Það er alveg ljóst.

Það kemur líka fram í greinargerðinni og kom fram í umræðum hér í dag að til dæmis endurmenntunarkostnaður mun aukast. Svo segja menn að ýmislegt eigi að nýtast betur þar. Það er skrifstofa sem sér um þróunarsamvinnu þessara fjölþjóða eða hvað það er kallað í ráðuneytinu og síðan er Þróunarsamvinnustofnun. Menn segja að það eigi að nýtast betur á þeirri skrifstofu, ég skil það ekki almennilega. Ég meina, af hverju nýtist það ekki alveg fullkomlega í dag? Þá spyr ég aftur: Væri ekki bara betra að flytja það fólk yfir í Þróunarsamvinnustofnun? Eða eru menn að tala um að nýta fólkið sem kemur frá Þróunarsamvinnustofnun eða þann fjölda í einhver önnur verkefni í utanríkisráðuneytinu? Ekkert af þessu liggur fyrir og engum þessara spurninga er svarað.

Það er því eins og við sögðum hér strax í dag áður en umræðan byrjaði, við mótmæltum því að við ættum að tala um þetta vanbúna frumvarp í dag í stað þess að tala um þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæði um aðildarviðræður, sem er aktúelt mál sem liggur á og er tilbúið en tala á um það 14. apríl, (Forseti hringir.) en um þetta mál erum við látin tala í dag og menn gera okkur ekki (Forseti hringir.) einu sinni þann heiður að vera viðstaddir.