149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024 sem dreift hefur verið á þskj. 1181.

Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára er nú lögð fram í fjórða sinn á grundvelli laga um opinber fjármál. Fjármálaáætlun þessi er önnur áætlun ríkisstjórnarinnar og byggist í meginatriðum á gildandi fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Hún felur þannig í sér útfærslu á markmiðum síðustu fjármálaáætlunar og fjármálastefnu og á stefnumörkun um þróun tekna, gjalda og efnahags opinberra aðila, þ.e. A-hluta ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu. Í þessu felst að markmið um afkomu og skuldaþróun skulu vera þau sömu í fjármálaáætlun og koma fram í fjármálastefnu, en stefna þessarar ríkisstjórnar var lögð fram í desember 2017 og samþykkt í mars á sl. ári.

Í fjármálaáætluninni er sett fram sundurliðuð tekjuáætlun fyrir hið opinbera en einnig sérstaklega fyrir A-hluta ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélög hins vegar. Í áætluninni er jafnframt settur útgjaldarammi og stefna fyrir hvert málefnasvið í starfsemi A-hluta ríkissjóðs en með því móti er ætlunin að skapa sem skýrast samhengi milli faglegra markmiða og þeirra fjármuna sem varið er til einstakra málefnasviða. Fjármálastefna og -áætlun taka til opinberra aðila í heild, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja hins opinbera. Þótt ríkisreksturinn sé mun umfangsmeiri er það sameiginleg ábyrgð ríkis og sveitarfélaga að tryggja að ákvarðanir séu teknar í samræmi við markmið hagstjórnarinnar og að þær séu það almennt, einkum að fjárfestingar séu minni þegar þensla er mikil og öfugt.

Virðulegi forseti. Við höfum í vinnu við fjármálaáætlun gert greiningar sem horfa til mismunandi þróunar kæmi til áfalla, t.d. í flugrekstri á Íslandi. Þannig eru ýmsir óvissuþættir, sem við höfum verið að skiptast á skoðunum um að undanförnu, sem geta haft áhrif til breytinga en fjármálaáætlunin er byggð á gildandi hagspám. Það verða áfram ýmsir óvissuþættir og ef til þess kemur þarf að taka á þeim. Það verður vafalaust hluti umræðunnar í dag og hinnar þinglegu meðferðar að skoða sviðsmyndir, en við erum í fyrsta skipti að birta sviðsmyndir í fjármálaáætlun þeirri sem nú er lögð fram. Það hvernig vinnumarkaðurinn aðlagast er líka mikilvægt atriði. Hver verður niðurstaða samninga sem þar verða gerðir? Þetta eru allt saman áhrifaþættir sem við vitum ekki endanlega niðurstöðu um þegar við hefjum þessa umræðu hér í dag.

Áhrif af rekstrarstöðunni í flugi gætu hins vegar orðið umtalsverð, bæði á nettóútflutningstekjur, mögulega á gengi gjaldmiðilsins, á vinnumarkað og verðbólgu í landinu. Við erum lítið hagkerfi sem er næmt fyrir ágjöf en það er líka sveigjanlegt eins og margoft hefur sýnt sig, og þetta hagkerfi hefur verið fljótt að aðlagast breyttum aðstæðum.

Í efnahagsforsendum sem gengið er út frá í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir nokkurri fækkun ferðamanna. Komi til þess að þeim fækki enn frekar verða undirliggjandi forsendur áætlunarinnar teknar til endurmats.

Hæstv. forseti. Ég vík næst að efni áætlunarinnar. Eins og ég kom að hér áður byggist áætlunin á gildandi fjármálaáætlun sem samþykkt var á árinu 2018 og fjármálastefnu frá því í upphafi kjörtímabils. Við erum hér í fyrsta sinn frá gildistöku laga um opinber fjármál að ræða aðra fjármálaáætlun sitjandi ríkisstjórnar. Þetta fyrirkomulag felur í sér að meginstefnumörkun ríkisstjórnarinnar, svo sem í skattamálum og útgjaldahlið ríkissjóðs, liggur þegar fyrir. Engu að síður hafa verið gerðar á áætluninni nokkrar breytingar og aðlaganir sem þó rúmast innan heildarramma stefnunnar, eins og regluverk okkar gerir ráð fyrir.

Helstu breytingar frá fyrri áætlun má rekja til þess að farið er að hægja á í hagkerfinu og þar með tekjuvextinum samhliða því, verðlagsforsendur hafa breyst frá fyrri fjármálaáætlun og þá sérstaklega í fjárlögum 2019. Þetta hefur leitt til þess að ríkisstjórnin hefur þurft að bregðast við með tilteknum ráðstöfunum, svo sem með því að draga úr vexti launa og kaupa á vöru og þjónustu sem birtist í þessari áætlun og hliðrunum á verkefnum, svo dæmi séu tekin. Samhliða hefur ríkisstjórnin einnig lagt sitt af mörkum til að liðka fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði með frekari ráðstöfunum umfram þær sem kynntar voru í síðustu fjármálaáætlun.

Í stuttu máli má segja að helstu breytingarnar í þessari áætlun séu í fyrsta lagi lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði á árunum 2020 og 2021, en kostnaður af þeirri aðgerð nemur 900 milljónum 2020, 2,7 milljörðum árið 2021 og 3,8 milljörðum frá og með árinu 2022. Í öðru lagi hækkun stofnframlaga til almennra íbúða um 2,1 milljarð frá og með árinu 2020 til ársins 2022. Í þriðja lagi 4 milljarða viðbótaraukning til samgönguframkvæmda frá og með árinu 2020. Í fjórða lagi er veruleg aukning framlaga til nýsköpunarverkefna, líkt og boðað var í stjórnarsáttmála. Þar munar mest um 1,1 milljarð á árinu 2020 vegna rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun og aukin framlög vegna endurgreiðslukostnaðar til fyrirtækja við rannsóknir og þróun. Í fjárlögum 2019 hækkuðu þau um 1 milljarð og munu hækka um 250 millj. kr. árlega frá og með árinu 2021. Og svo loks þessu til viðbótar — og þar vísa ég sérstaklega til stjórnarsáttmálans — er gert ráð fyrir því að hækka styrki til nýsköpunar um 500 milljónir á næsta ári, 1,5 milljarða árið 2021 og 2 milljarða árin 2022–2024, alls 8 milljarðar kr. Í fimmta lagi eru aukin framlög til byggingar nýrra hjúkrunarrýma, þ.e. 500 millj. kr. 2020, 1,5 milljarðar kr. 2021 og 2 milljarðar kr. árið 2022 og 2023. Í sjötta lagi er breytt útfærsla skattaðgerða frá forsendum gildandi fjármálaáætlunar, en þar er um að ræða 1,6 milljarða vegna barnabóta, breytta útfærslu skattaðgerða frá forsendum gildandi fjármálaáætlunar og sömuleiðis 400 millj. kr. vegna stuðnings við bókaútgáfu og 400 milljónir vegna aðgerða til að bæta starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla.

Hæstv. forseti. Eftir að hafa siglt hraðbyri og vaxið um þriðjung frá árinu 2010 er íslenska hagkerfið farið að hægja á sér. Þar geta ýmsir þættir sem nokkur óvissa er um haft frekari áhrif til kólnunar. Við þessar aðstæður varðar miklu að helstu áhrifavaldar hagstjórnarinnar hér á landi, opinber fjármál, peningastefnan og vinnumarkaðurinn, standi að málum með ábyrgum hætti hver á sínu sviði til að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og þeirri hagsæld sem landsmenn búa við um þessar mundir.

Ríkisstjórnin leggur sitt af mörkum með því að leggja fram fjármálaáætlun fyrir næstu ár sem endurspeglar sterka stöðu og festu í stjórn opinberra fjármála. Sú stefna sem þar er mörkuð verður þungt lóð á vogarskálar jafnvægisins í hagkerfinu. Jafnframt verður skilað afgangi á heildarafkomu. Skattlagning á heimili og fyrirtæki lækkar með raunhæfum hætti. Skuldastaðan og vaxtabyrði af hennar völdum heldur áfram að lækka jafnt og þétt, auk þess sem komið verður á fót þjóðarsjóði til að mæta hugsanlegum fjárhagsáföllum. Samhliða þessu er gert ráð fyrir að gerðar verði kostnaðarsamar ráðstafanir til að stuðla að því að sátt geti tekist vegna samninga á vinnumarkaði.

Síðast en ekki síst má nefna að í ljósi þess að um hægist í atvinnulífinu á næstu árum, með tilliti til fjárfestinga — í fjárfestingum einkageirans er aðeins að draga úr, samkvæmt opinberum tölum — er í fjármálaáætluninni gert ráð fyrir myndarlegri aukningu í fjárfestingum hins opinbera, bæði í innviðum hins félagslega stuðningskerfis samfélagsins og í efnislegum innviðum. Þar ber auðvitað langhæst að áformað er þetta átak, sem ég hef minnst á, í uppbyggingu samgöngumannvirkja og að þar verði fjárfestingar til mikilla muna umfangsmeiri en gert var ráð fyrir í fyrri fjármálaáætlun.

Þróttmikið hagvaxtarskeið undanfarinna ára hefur skilað sér í miklum kjarabótum fyrir heimili og bættri fjárhagsstöðu fyrirtækja og hins opinbera. Kaupmáttur launa hefur aukist um þriðjung frá árinu 2013 og óvíða er tekjujöfnuður meiri en hér á landi. Um þessar mundir eru hins vegar komnar fram vísbendingar um að farið sé að hægja á þessu vaxtarskeiði og við þurfum að aðlaga okkur að aðeins hægari takti í gangi efnahagslífsins. Það er útlit fyrir að hagvöxtur á yfirstandandi ári verði, svo dæmi sé nefnt, sá minnsti undanfarin sjö ár. Bregði hins vegar ekki til verri vegar benda hagspár til að hagvöxtur geti aftur tekið við sér á næsta ári.

Aðgerðir síðustu ára gera það að verkum að hagkerfið er í heild sinni mun betur í stakk búið en áður til að bregðast við verri horfum. Verulegar umbætur á undanförnum árum styðja þannig við aukna framleiðni og hagsæld til frambúðar. Fjármálakerfið hefur verið endurreist á heilbrigðum grunni og starfar eftir skýru regluverki. Fjármagnshöft hafa verið losuð með árangursríkum hætti. Skuldir ríkissjóðs vegna endurfjármögnunar fjármálakerfisins hafa verið greiddar upp að fullu og aðrar skuldir vegna hallareksturs umliðinna ára hafa einnig verið lækkaðar mjög mikið og samið um betri vaxtakjör á öðrum lánum. Við allt þetta hefur vaxtabyrðin lést til mikilla muna en batnandi vaxtajöfnuður hefur aukið mjög svigrúm stjórnvalda til að sækja fram á hinum ýmsu sviðum. Og eins og menn þekkja frá fyrri árum hafa tollar af iðnaðarvörum og vörugjöld verið felld niður og fá lönd í heiminum eru nú jafn opin fyrir viðskiptum og Ísland.

Allt eru þetta þættir sem við búum að í dag. Þótt það hægi aðeins á í hagkerfinu erum við í góðri stöðu til að takast á við þann breytta veruleika. En ég minni á og það er vert að hafa það í huga að áfram er spáð, samkvæmt öllum gildandi hagspám, vexti á næstu árum sem er mjög ásættanlegur og mátulegur eftir þetta mikla vaxtarskeið sem við höfum verið í.

Öllu þessu til viðbótar má minna á að réttindi í lífeyrissjóðum á opinberum og almennum vinnumarkaði hafa verið samræmd. Heimili, fyrirtæki og hið opinbera hafa nýtt vaxtarskeiðið til að greiða niður skuldir þannig að það eru ekki bara skuldir ríkisins sem hafa lækkað heldur sömuleiðis fyrirtækjanna og heimilanna. Er nú svo komið að hrein staða hagkerfisins er jákvæð um nærri 10% af vergri landsframleiðslu í fyrsta skipti í lýðveldissögunni.

Allar forsendur eru því fyrir því að við getum aðlagast aðeins minni vexti í hagkerfinu. En eins og áður segir eru sömuleiðis allar forsendur fyrir því, þó að hagvöxtur stefni í að verða sá minnsti um nokkurra ára skeið í ár, að hagvöxtur taki við sér á næsta ári og verði meiri hér á landi á næstu árum en í flestum nágrannaríkjum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að víkja að nokkrum útgjaldamálum þessarar áætlunar. Samfélagslegir innviðir í víðum skilningi eru mikilvæg forsenda efnahagslegra og samfélagslegra framfara. Brýnt er að ekki myndist langtímafjárfestingarhalli sem gengur gegn markmiðum um sjálfbærni opinberra fjármála. Á árunum eftir efnahagshrunið dróst fjárfesting hins opinbera mikið saman og enn vantar talsvert upp á að vinna þann halla í innviðum upp, einkum í samgöngumálum og raforkumannvirkjum sem eru mikilvægar stoðir hagvaxtar næstu ára og áratuga. Gert er ráð fyrir að fjárfestingarstig hins opinbera hækki umtalsvert á næstu tveimur árum en á sama tíma, eins og áður segir, dregst atvinnuvegafjárfesting saman. Þessi áætlun gerir ráð fyrir því að heildarframlög ríkissjóðs til fjárfestinga á árunum 2020–2024 nemi um 400 milljörðum kr. Það er gert ráð fyrir verulegri aukningu framlaga til samgönguinnviða, 4 milljarða viðbótaraukningu á hverju ári til að flýta fyrir nauðsynlegum nýframkvæmdum og viðhaldi. Það er áfram gert ráð fyrir umtalsverðum fjármunum til byggingar nýs Landspítala og þá er gert ráð fyrir fjölgun hjúkrunarrýma og svona mætti áfram telja. Áætlanir ríkisstjórnarinnar í fjármálaáætluninni byggjast á grunni síðustu áætlunar og það er einkum á því sviði sem við sjáum breytingar að þessu sinni.

Með sérstökum ráðstöfunum, almennu aðhaldi og viðbótararðgreiðslum hefur skapast svigrúm til þess að auka framlög til nokkurra málaflokka í þessari áætlun. Þar má nefna sem dæmi þau framlög sem fara til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina. Framlög til menntamála eru líka vaxandi og þau hafa sömuleiðis aukist verulega til velferðar- og heilbrigðismála. Þá hafa aðrir málaflokkar fengið hlutfallslega aukið vægi eins og þróunarsamvinna og umhverfismál og munar þar mjög miklu. Ég vek sérstaklega athygli á þessum tveimur málaflokkum, hversu mikil breyting hefur orðið á fáum árum í hvoru tveggja, þróunarmálum og umhverfismálum.

Þrátt fyrir fordæmalausa raunaukningu útgjalda hefur samneyslan sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verið stöðug. Ég vek sömuleiðis athygli á því. Það segir okkur að við höfum haft efni á því að gera betur og meira á svo mörgum sviðum.

Hæstv. forseti. Ytri aðstæður eru í flestu tilliti enn þá mjög hagstæðar á Íslandi. Hagkerfið nýtur aukins trausts. Það sést í bættu lánshæfismati ríkissjóðs, lánskjör ríkisins hafi aldrei verið hagstæðari. Við höfum á skömmum tíma tekið út mikinn lífskjarabata en það má ekki gera ráð fyrir að lífskjör batni áfram með sama hraða á næstu árum. Hagkerfið siglir nú inn í tímabil þar sem gæta þarf að samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og viðhafa varkárni í opinberum fjármálum. Við þurfum að hugsa til lengri tíma, (Forseti hringir.) til langrar framtíðar, og leggja áherslu á aukna framleiðni með aðkomu allra lykilaðila í hagkerfinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessari áætlun verði vísað til hv. fjárlaganefndar að lokinni þessari umræðu.