149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem mig langar til að fjalla um. Annars vegar launaþróun eins og hún kemur fram í fjármálaáætlun, en forsendur fjármálaáætlunar gera ráð fyrir tæpum 14% uppsöfnuðum hagvexti á tímabili áætlunarinnar. Hins vegar er á sama tíma gert ráð fyrir tæplega 15% verðbólgu, þannig að krónurnar í lok tímabilsins eru orðnar verðminni en krónurnar í dag og fjármálaáætlunin er á verðgildi ársins 2019. Þó að einhver hækkun sé í tölunum til málefnasviðanna eru þær verðminni.

Það sem ég skil hins vegar ekki eru launaforsendurnar sem gert er ráð fyrir, þetta 0,5% umfram verðlag og 1,5% í lok áætlunarinnar, til opinberra starfsmanna. Það er þá uppsafnað tæplega 19% og ef maður bætir því inn í tölur málefnasviðanna er frekar augljóst að verið er að tala um samdrátt til allra málefnasviða. Eina skýringin sem ég finn á því er aukning í almenna varasjóðinn. Sú aukning gæti útskýrt þessa launaþróun, en það er mjög undarlegt að setja væntanlega og útreiknaða launaþróun í almenna varasjóðinn. Það ætti að vera eitthvað sem er óskilgreint og óvænt sem á að koma í almenna varasjóðinn.

Þess vegna langar mig til að spyrja: Er samdráttur í kortunum hvað fjármálaáætlun varðar miðað við það að útreiknaða launaþróun virðist vanta inn í málefnasviðin?

Hins vegar, hvaða tölur eru þetta þá í almenna varasjóðnum, sem var verið að hækka svona gríðarlega mikið, hækka mjög mikið? Og við vitum ekki af hverju, það stendur ekki í fjármálaáætluninni, nema bara aukin óvissa. Hvaða óvissu er verið að tala um?