149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög ánægð með margar greinar nýrra laga, sem eru kannski ekki ný lengur, um opinber fjármál. Eina greinin sem við í Samfylkingunni vorum á móti þegar lögin voru afgreidd var 7. gr., um fjármálareglur. Ég minnist þess að í atkvæðaskýringu sagði ég í þessum ræðustól að kæmust við til valda myndum við taka þessa reglu út úr lögum um opinber fjármál.

Það skiptir hins vegar mjög miklu máli að ríkisstjórnin setji sér stefnu og haldi sig við stefnuna og hagi henni þannig að það sé eitthvert svigrúm. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á áðan að við búum við óvissuástand, ég tala ekki um land sem býr við örmynt sem sveiflast mikið. Við hefðum auðvitað, og þessi ríkisstjórn sem nú er við völd, átt að gera ráð fyrir því að eitthvað gæti gerst og hafa stefnuna þannig að afgangurinn gæti verið á einhverju ákveðnu bili.

Þannig að ef vel árar myndum við skila meiri afgangi en að við ættum eitthvert svigrúm ef einhverjir brestir yrðu. Hvort sem aflabrestur yrði eða vandamál við flugrekstur o.s.frv. eins og nú blasir við. Það var hins vegar ekki gert.

Þegar við vorum að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar á sínum tíma varðist hún þeirri gagnrýni sem kom úr öllum áttum. Við sitjum því uppi með samþykkta stefnu ríkisstjórnarinnar og erum svolítið að súpa seyðið af henni og það versta er auðvitað að þeir sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda munu þurfa að bera þessa niðursveiflu nema við finnum einhverja aðra leið, t.d. tekjuöflunarleiðir.