149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hrædd um að við þurfum að breyta lögum um opinber fjármál ef við ætlum að breyta stefnunni núna við þessar aðstæður. Þó að við séum sannarlega að fara í niðursveiflu þá er varla hægt að kalla þetta þjóðarvá eða stórkostlegt efnahagslegt áfall sem ekki er hægt að finna aðrar leiðir en að breyta stefnunni. Ég vil auðvitað að við breytum lögunum og til að þurfa ekki að búa við svona óskynsamlega stefnu en þá verðum við væntanlega að skipta um ríkisstjórn.

Að lokum, herra forseti, ég er mjög ánægð með margt af vinnunni sem ráðuneytin hafa unnið í þessari fjármálaáætlun sem við erum að ræða og eigum eftir að ræða meira í dag og á morgun. Vegna þess að það skiptir máli fyrir markvisst starf að áætlunin sé góð og að við getum, löggjafinn, rætt stefnuna í hverju málasviði fyrir sig og reynt að meta hvort nægilegt fjármagn sé undir.