149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vitað innan þeirra flokka sem ég er í samstarfi við hver skoðun mín og Vinstri grænna er á 7. gr. Það var hins vegar ekki þeirra skoðun á þeim tíma og ég held að hún hafi ekki breyst. Ég vil hins vegar segja að við byggjum þessa áætlun á gildandi fjármálaáætlun sem við höfum, breytingum sem urðu við afgreiðslu fjárlaganna, uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofunnar og svo þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur sett fram við þetta. Hagstofan tók tillit til fækkunar ferðamanna, hægari vaxtar einkaneyslunnar, atvinnuvegafjárfestingar og svo margt annað, þannig að hún miðast ekki alveg við að allt sé „in full swing“.

Ég vil ekki segja að við vitum að þetta versni, af því að við vitum það ekki, við teljum það bara. Við erum ekki það forspá. Við þurfum að horfast í augu við það að fram undan er vinna og (Forseti hringir.) ég held að við ættum sérstaklega að horfa til þess hvað fjármálaráð kemur til með (Forseti hringir.) að segja varðandi þá óvissu sem við teljum að sé uppi núna.