149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:27]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Töfraorðið hér er kaupmáttur. Ég hef ítrekað talað um það töfraorð. Það skiptir engu máli hversu mörgum prósentum hefur verið bætt ofan á okkur í kjarabót ef við erum öryrkjar, ef það kostar enn fleiri prósentur að kaupa í matinn. Við hvað er ég að miða? Lágmarksviðmið hlýtur að vera lágmarksframfærsluviðmið velferðarráðuneytisins sem í raun, svo einkennilegt sem það er, lækkaði nú í haust um 30.000 kr. eða þar um bil án nokkurra útskýringa. Það er með ólíkindum ef lágmarksframfærsluviðmiðin poppa bara niður. Getur verið að alltaf sé verið að kalla eftir því að við reynum að draga lágmarkslaunin upp í það sem opinberlega hefur verið viðurkennt sem lágmarksframfærsla?

Það eina sem er verið að tala um er að hætta að skattleggja fátækt. Ef fólk sem er að vinna baki brotnu og fær 220.000–240.000 kr. útborgað, ef það er ekki fátækt og ef ekki er ósanngjarnt að skattleggja það, þá veit ég ekki hvað það er.

Ég segi: Getum við tekið saman höndum og farið að forgangsraða fjármununum öðruvísi þannig að það líti virkilega út um tíma að við séum að gera það fyrir þá sem eru að biðja um hjálpina? Við vitum að úti í samfélaginu er fátækt, þetta er ákveðin veruleikafirring. Það er eins og, ég ætla ekki að vera leiðinleg við hæstv. fjármálaráðherra, að hann geti bara alls ekki skilið hvað það er að eiga bágt og horfa upp á barnið sitt án þess að geta veitt því nokkurn skapaðan hlut.