149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:59]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er áhugaverð umræða. Í þessari þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun til næstu fimm ára eru einmitt þessi tæki notuð til að auka fjárfestingu af því að hún er að dragast saman hjá einkageiranum. Þá verður hið opinbera að stíga lengra. Það getum við vegna þess að við höfum undirbúið ríkissjóð fyrir það að taka á sig áföll. Hann er miklu sterkari. Bæði heimili og hið opinbera og fyrirtæki í landinu hafa nýtt hagvaxtarskeið undanfarinna ára til þess að lækka sínar skuldir þannig að við erum í miklu betri stöðu til að takast á við samdrátt sem núna er í kortunum, hver svo sem hann verður.

Þá ætla ég aftur að víkja að því sem ég sagði í andsvari við hv. þm. Þorstein Víglundsson. Við megum samt ekki tala um þetta þannig að nú sé sprungið á öllum hjólum í efnahagslífinu því að enn er það nú þannig að hagspáin segir 1,7% hagvöxt og það er í samhengi hlutanna um hagvöxt ágætur gangur í efnahagslífinu.