149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að játa að ég hafi orðið undir í þeim efnum, en hvað um það, þetta birtist á þennan hátt. Ég virði alveg skoðanir hv. þingmanns á notendagjöldum á vegum en ég held að það sé aftur á móti umræða sem við komumst ekki hjá að taka hvernig framtíðarskattlagning umferðar verður háttað. Ég bið hv. þingmann um það þegar við förum að vinna í hv. fjárlaganefnd að því að greina fjármálaáætlun og útgjöld vegna hennar, að við setjum þá hluti sem hún nefnir í samhengi. Það eru aukin fjárframlög til húsnæðismála, við þurfum að skoða þær áherslur sem þar eru lagðar. Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi lesið stefnumörkunina til enda við undirbúning fyrir fyrri umræðu um þingsályktunartillöguna. Það ætla ég að geyma til vinnunnar og til þess þegar ráðherra málaflokksins verður hér til svara seinna í kvöld. (Forseti hringir.)

Meginmálið sem ég vildi að lokum koma fram, virðulegur forseti, er að að þessu sinni mun það skipta máli að hv. fjárlaganefnd taki þessa þingsályktunartillögu til breytinga.