150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

breytingartillögur stjórnarandstöðunnar við dagskrármál.

[10:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í ljósi þess að sú 15 milljarða tillaga sem lögð var fram af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er nú orðin u.þ.b. 20 milljarðar tel ég sýnt að þar hafi sannarlega verið hlustað eftir tillögum minni hlutans en ekki bara því sem hv. þingmaður kallar ábendingar. Ég lít svo á að tillögur til viðbótar komi ekki endilega frá meiri hlutanum frekar en aðrar breytingar sem nefndir þingsins eru að gera núna, heldur lít ég á þetta sem samvinnuverkefni.

Ég vil hins vegar árétta það sem hér er sagt varðandi tillögur um viðbætur til heilbrigðiskerfisins, sem skila sér inn í tillögur fjárlaganefndar, að þar liggur líka fyrir skýr yfirlýsing ríkisstjórnar um að annað fjáraukalagafrumvarp verði lagt fyrir á þessu ári. Þar verður bættur kostnaður sem fellur til í heilbrigðiskerfinu af þessum veirufaraldri. Það liggur algjörlega fyrir og hann er ekki fyrirsjáanlegur eins og staðan er núna. Það vitum við öll sem hér erum. Leiðarljósin í þessu eru fyrst og fremst þau að við sjáum fram á að fjármunirnir nýtist á þessu ári. Það er ástæðan fyrir því að til að mynda er lagður til milljarður í tengivegi í þessum tillögum (Forseti hringir.) en ekki umframkostnaður. Vegna þess að hv. þingmaður spyr um vilja þingmanna þá árétta ég að hv. þingmenn eru alltaf bundnir af sannfæringu sinni.