150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

greining Covid-19.

[10:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er eiginlega orðinn sannfærður um að um miðjan janúar sl. hafi ég rekist illilega á eineggja tvíburasystur Covid-19 veirunnar. Hvers vegna er ég sannfærður um það? Vegna þess að það tikkar í öll boxin. Ég hef aldrei hóstað eins mikið á ævinni á hálfum mánuði og þá. Ég hef aldrei orðið fyrir annarri eins slímmyndun í lungum og þá. Bragðskynið hvarf, matarlystin hvarf, ég missti 3 kíló. Ég mæli ekki með þeirri megrunaraðferð, þetta var ömurlegt, kviðverkir, beinverkir og það furðulegasta var að lengi á eftir mátti ég ekki hlæja án þess að fá hósta.

Það sem ég get staðfest líka í þessu samhengi er að ég veit um tvo fjölskyldumeðlimi sem fengu þetta í desember og eru enn slæm þremur mánuðum eftir að þessi veira kom og tikka í öll boxin. Ég spyr: Er það kannski skýringin á því hvers vegna þessi veira fer svona misjafnlega í þjóðina? Er einhver kominn með ónæmi?

Svo fór ég að tékka á því og spyrja fólk hreinlega hvort það hefði fengið viðkomandi flensu sem við köllum bara venjulega flensu. Ég segi fyrir mitt leyti að það var ekkert annað, ég hef aldrei fengið svona flensu á ævinni, samt hef ég fengið flensu. Ég spurði fullt af fólki og allir lýstu þessu eins, en það merkilega við það þegar maður spyr þetta sama fólk hvort það hafi verið innan um og/eða fengið Covid-19 veiruna hefur það ekki fengið hana.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hefur þetta verið kannað? Er það ekki svolítið furðulegt að desember og janúar skuli vera flensa í gangi sem er svona gjörsamlega alveg eins og Covid-19, tikkar í öll box, en samt sagt: Nei, þetta var ekki hún? Þá hlýtur þetta að hafa verið eineggja tvíburi og ég spyr bara: (Forseti hringir.) Hefur þetta verið kannað eða verður þetta kannað?