150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni góða spurningu og fá tækifæri til að árétta það sem ég fór yfir í ræðu og kemur fram í nefndaráliti. Eðlilega og í ljósi sögunnar frá efnahagshruni þá ræddum við þetta í þaula í nefndinni. Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á, það varð til þegar við fjölluðum um málið og var sett inn í mál nr. 683 að sama skapi, og var full samstaða um, að sérstök nefnd yrði skipuð til að halda utan um umbúnaðinn og tryggja að hér yrði allt uppi á borðum, allt skráð og upplýsingar og fullt gagnsæi um fyrirgreiðslur til þeirra fyrirtækja sem munu þurfa á þessu úrræði að halda.

Við eigum núna að breyta aðeins um kúrs í hugarfari og við eigum að treysta lánastofnunum til þess að nýta þetta úrræði og við eigum að freista þess að það verði fullt traust alla leið í gegn. Við erum mjög meðvituð um að um leið þarf ákveðinn sveigjanleika til að þetta úrræði nýtist, staðan er það alvarleg þegar fyrirtæki eru komin þangað að þurfa beinan ríkisstuðning í slíku formi, eða ábyrgð skulum við öllu heldur segja vegna þess að þetta eru lán sem fyrirtækin greiða auðvitað til baka, og þá þarf allt að vera uppi á borðum. Og það er líka mjög mikilvægt að nefndir þingsins séu upplýstar reglubundið um eftirlit þessarar sérstöku nefndar. Við munum eiga þá umræðu þegar Seðlabanki og fjármála- og efnahagsráðherra eru búnir að semja um skilyrði sín á milli og koma fyrir fjárlaganefnd og ræða þau skilyrði og þennan umbúnað.