150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fínar spurningar. Fyrst vil ég víkja að innviðaskuldinni sem við horfumst svo sannarlega í augu við. Hún er staðreynd og við höfum ekki náð í skottið á okkur með hana. Við fáum gjarnan mjög vandaðar umsagnir frá Samtökum iðnaðarins. Ég leyfi mér bara að nefna það og við eigum góð samtöl við þau samtök. Þau hafa mjög gott yfirlit yfir þetta og setja þetta afskaplega vel fram. Ég gæti eftir minni vitnað í einhverjar tölur en læt það hjá líða. Ég held að þessi innviðaskuld leiði til þess að stærsti hlutinn fer að langmestu leyti í samgöngumannvirki. Það endurspeglast síðan í seinni hluta spurningarinnar um hvort það sé hyggilegt við þessar kringumstæður að leggja áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun og kannski beina fjármunum í sjóði þar sem við getum sem nefnd verið nokkuð örugg að sé fullt jafnræði og kannski dreifingin sé sanngjörn og jafnvel úti allt land o.s.frv. Það birtist í breytingartillögum nefndarinnar þar sem við leggjum langmest til rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina. Ég vil meina að við höfum verið nokkuð sammála um þennan þátt.

Varðandi viðmiðin sem ég kalla það sem kemur fram í þingsályktunartillögunni er 75 milljarða fjárfestingarátak í gildandi fjárlögum. Þar er fjöldinn allur af verkefnum. Kannski verðum við að umbera það þessar vikurnar þegar við erum að koma okkur í gegnum þetta tímabundna ástand að það hægist á öllum framkvæmdum og verkefnum. Það eru þó sannarlega verkefni í gangi eða eru að fara í gang og við þurfum að vanda okkur við að hitta á þetta þegar við (Forseti hringir.) náum viðspyrnu að verkefnin skili sér í því sem við ætlum þeim.