150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil tæpa örsnöggt á þessum atriðum varðandi nýsköpunina. Ríkisstjórnin leggur til 1,75 milljarða í nýsköpun í fjáraukalagafrumvarpinu í þessu fjárfestingarátaki en nefndin bætir við 1,25 milljörðum. Við erum komin með 3 milljarða samtals í marga mismunandi sjóði, þar af 700 milljónir í Tækniþróunarsjóð og Samtök atvinnulífsins benda í umsögn sinni á að af þeim verkefnum sem fengu hæstu einkunn í síðustu úthlutun fékk tæpur þriðjungur verkefna þar fjárveitingu. Um 70% verkefnanna eru eftir af þeim sem fengu hærri einkunn. Þar bentu Samtök iðnaðarins á að Tækniþróunarsjóður gæti auðveldlega tekið 3 milljarða í viðbót bara fyrir þau verkefni og viðbótin er 700 milljónir. Maður veltir fyrir sér af hverju við grípum ekki svona tækifæri og drífum í.