150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þarf svo sem ekki að segja eins og aðrir þingmenn að það er ljóst að íslenskt atvinnulíf er að ganga í gegnum fordæmalausa tíma. Það er ljóst að það mun reyna mikið á efnahagslega og félagslega innviði landsins. Samfylkingin styður að sjálfsögðu allar góðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar þar sem þær er að finna, en eins og allir flokkar í stjórnarandstöðu á þingi hafa bent á sem og fjölmargir hagsmunaaðilar er ekki nóg gert. Við vitum að meira verður gert en við í stjórnarandstöðunni teljum að núna strax sé hægt að gera meira. Við í Samfylkingunni leggjum sömuleiðis til í okkar nefndaráliti nokkrar uppbyggilegar hugmyndir sem gætu einfaldlega hjálpað íslenskum heimilum og atvinnulífi í þessu ástandi. Þar þarf kannski fyrst að hafa í huga að langstærstur hluti af þessum 230 milljarða kr. aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar er einungis greiðslufrestur á opinberum gjöldum, ábyrgð á lánum eða úttekt fólks á sínum eigin séreignarsparnaði. Ef við brjótum það aðeins niður sjáum við að hin raunverulega innspýting ríkissjóðs núna er um einn þriðji af þessum 230 milljörðum, 60–70 milljarðar. Það er allt og sumt. Sú tala er minna en 7% af ríkisútgjöldum og dugar því skammt í svona ástandi. Ég held að allir sjái það.

Deloitte gerði samanburð á aðgerðum ríkisstjórnarinnar og aðgerðum annarra þjóða í kringum okkur og þar erum við í neðri kantinum. Í sumum tilvikum er aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar helmingi lægri en aðgerðapakki annarra ríkisstjórna. Við heyrum þetta alltaf þegar við segjum: Heyrðu, við þurfum meira núna. Nú er krísa. Þá er sagt: Þetta kemur seinna.

Nú þarf hins vegar að bregðast við. Ég veit að ekki er hægt að gera allt núna en það er svo sannarlega hægt að gera meira núna. Það er líka fráleitt að halda því fram að þetta séu stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar eins og fullyrt hefur verið. Það er alls ekki rétt. Við sem sátum á þingi í bankahruninu vitum að þetta er gjörsamlega galin fullyrðing. En það skiptir ekki öllu máli, við skulum bara tala góða íslensku og vera ekkert að blása neitt upp en ekki gera heldur lítið úr því sem þó er gert. Að sjálfsögðu er margt jákvætt gert og ég tek undir það sem formaður fjárlaganefndar sagði, það náðist ágætissamkomulag og samtal innan fjárlaganefndar en síðan vildum við gera meira. Þar skildi leiðir.

Við í fjárlaganefnd og við sem sitjum hérna megin í salnum erum með löggjafarvaldið. Það þýðir ekki alltaf að koma í þennan ræðustól og segja: Ég vildi að ég gæti gert meira. Þetta heyrir maður stjórnarþingmenn segja en þá segi ég á móti: Þið getið gert meira. Þið þurfið ekki að fara upp í Arnarhvol og fá grænt ljós frá ráðherranum. Þingið er með löggjafarvaldið og það er með fjárveitingavaldið. Ef þið viljið gera meira skuluð þið gera meira. Auðvitað veit ég að endalaust er hægt að takast á um hversu tilbúnar ákveðnar brýr eða vegir eru. Ég er enginn sérfræðingur í brúm eða vegum, en einföld leið til að mæta ástandinu er að bæta í í nýsköpun, bæta í nýsköpunarsjóðina. Ég hef sagt að það sé bara pennastrik að tvöfalda Tækniþróunarsjóð. Við gætum gert það. Það væri líka mjög sniðug tillaga, hún nær til beggja kynja.

Það er þörf á meiri fjármunum í rannsóknasjóði. Þetta eru sjóðir sem atvinnulífið leggur mikla áherslu á og fyrir þetta áfall fékk minna en einn þriðji af þeim verkefnum sem sótt var um styrki fyrir í Tækniþróunarsjóð styrki, þ.e. þau verkefni sem fengu hæstu einkunn. Þarna úti eru fjölmörg verkefni sem vantar bara fjármagn frá hinu opinbera til að komast af stað. Þannig náum við viðspyrnunni. Þannig náum við að komast upp úr þeim öldudal sem íslenskt atvinnulíf er nú að ganga í gegnum. Það hefði verið hægur leikur fyrir meiri hlutann að setja meiri fjármuni í þetta. Það eru 300 milljónir í meðförum nefndarinnar en það er allt of lítið. Ég hefði viljað sjá myndarlegri hækkun í t.d. þennan sjóð eða Rannsóknasjóðinn eða Innviðasjóðinn. Þessar efnahagsaðgerðir eru pólitík. Þess vegna eigum við að takast á um það.

Við í stjórnarandstöðunni erum að reyna að sýna ríkisstjórninni aðhald enda er það okkar hlutverk. Við erum saman í þessu enda munum við hér seinna í dag, stjórnarandstaðan, styðja tillögu ríkisstjórnarinnar. En vitið þið hvað ríkisstjórnarflokkarnir gera? Heldur fólk virkilega að þau ætli að styðja okkar tillögur? Nei, allar okkar tillögur verða felldar hér í dag. Þá snýst þetta við. Við í stjórnarandstöðunni eigum að sýna ábyrgð og samstöðu. Við gerum það líka, við styðjum góðar tillögur ríkisstjórnarinnar, við tókum þátt og tökum að sjálfsögðu þátt af fullum heilindum í nefndastarfinu og erum að reyna að hnika til og náum ýmsu í gegn. En hvernig væri að stjórnarflokkarnir myndu þá einhvern tímann líta aðeins upp úr sínum möppum og taka undir þær tillögur sem stjórnarandstaðan leggur fram? Við erum í þessum báti saman. Þetta er lítið land og það er óþarfi að detta í pólitískar skotgrafir, hvað þá á tímum neyðarástands og heimsfaraldurs. Ef einhvern tímann er ástæða til að snúa bökum saman er það núna. Hægri eða vinstri skiptir ekki máli núna. Margar af þessum aðgerðum, langflestar tillagna stjórnarandstöðunnar upp á 30 milljarða, eru tillögur sem ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir, geta í hjarta sínu alveg stutt og sem hagsmunaaðilar hafa kallað eftir. Hér eru engar pólitískar sprengjur á ferðinni, þetta eru einfaldlega raunhæfar tillögur sem hægt væri að ráðast nú þegar í, hvort sem er í nýsköpun, rannsóknum eða samgöngum, fjárfestingum eða velferð.

Eins og allir vita munu þessir þrír flokkar fella hverja einustu tillögu hér seinna í dag og í kvöld sem er sorglegt en við í stjórnarandstöðunni eigum að sýna ábyrgð og samstöðu og standa með okkar ríkisstjórn o.s.frv., þ.e. ríkisstjórn Íslands, og samþykkja allt sem kemur frá henni. Við reynum að bæta það sem bæta má og auðvitað er það markmið okkar í nefndunum.

Herra forseti. Það er viðbúið að þessi efnahagslega niðursveifla verði djúp. Fulltrúar ferðaþjónustunnar sem komu til fjárlaganefndar lýstu stöðunni sem hamförum. Þeir sögðu að nánast öll fyrirtæki í ferðaþjónustu væru tæknilega gjaldþrota en þá mun eftirspurn eftir annarri þjónustu í öðrum geirum atvinnulífsins einnig dragast saman. Landsframleiðslan mun því fá mikið högg en íslenskt atvinnulíf og heimili eru úrræðagóð þegar kemur að áföllum. Það eru einungis 11 ár síðan við fórum síðast í gegnum mjög djúpa kreppu.

Að mati Samfylkingarinnar er algjört forgangsatriði stjórnvalda að vernda líf og heilsu almennings, númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm. Það á að vera leiðarljós í öllum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og um það er algjör samstaða. Við tökumst hins vegar á þegar kemur að efnahagslegum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar.

Efnahagslega eru erfiðir tímar fram undan. Bein störf í ferðaþjónustu eru um 30.000, þetta er meira en þrisvar sinnum meira en var fjöldi starfa í bankakerfinu 2008. Stór hluti þessara starfa er núna í hættu og við megum ekki gleyma að 10.000 manns voru atvinnulaus fyrir þetta áfall. Við erum að fá allverulegt högg á okkur og þess vegna skiptir svo miklu máli að nýta sér ríkisfjármálin. Langflestir sérfræðingar og allir stjórnmálaflokkar, takið eftir því, allir stjórnmálaflokkar frá vinstri til hægri, eru sammála um að nota ríkisfjármálin í svona ástandi eins og Keynes hefði viljað. Þegar eftirspurnin dregst saman á einkamarkaði búum við til eftirspurn með því að nota ríkisvaldið, skattféð okkar, þó að það kosti halla. Halli ríkissjóðs 2009 eftir bankahrunið var 216 milljarðar. Ef við uppreiknum þá tölu í krónum dagsins er það yfir 300 milljarða kr. halli. Að sjálfsögðu stefnir í stóran halla, að sjálfsögðu þarf ríkið að ráðast í lántökur og fjármagna tillögur stjórnarflokkanna en sömuleiðis tillögur stjórnarandstöðunnar. Við gerum það þegar þrengir svona að. Við komumst samt upp úr þessu. Við þurfum að vera raunsæ, við þurfum að horfast í augu við þá stöðu sem blasir við. Þetta er ekki bara vandi á Íslandi, að sjálfsögðu ekki, en vandinn getur verið mikill á Íslandi því að við reiðum okkur mjög mikið á ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er svipað hlutfall af landsframleiðslu og bankaþjónustan var 2008. Takið eftir því.

Ég hef áhyggjur af krónunni. Ég hef alltaf áhyggjur af krónunni, sagan sýnir að maður á að hafa áhyggjur af henni. Ef gengi krónunnar lækkar þýðir það alltaf lífskjararýrnun fólks og verðbólguskot. Þá kikkar verðtryggingin inn og þá hækka lán heimilanna. Ég veit að við höfum mjög stóran gjaldeyrisvaraforða. Það er gott. Ég veit að skuldir heimilanna eru miklu lægri en 2008 sem og skuldir fyrirtækjanna en við þurfum samt að vera á varðbergi með þetta. Sagan sýnir að krónan gefur eftir við svona aðstæður. Hún er nú þegar búin að lækka um 10% síðan um áramót. Ég held að hún sé meira að segja búin að lækka um 24% síðan ríkisstjórnin tók við þannig að þegar gengið lækkar hækka innfluttar vörur. Við flytjum svo mikið inn. Ég veit að olíuverðið hefur lækkað á móti o.s.frv. en fylgist bara vel með krónunni því að hún hefur svo mikil áhrif á allt saman.

Svo er auðvitað sérstakt áhyggjuefni að sumir af innviðunum voru veikir fyrir áfallið, eins og í heilbrigðiskerfinu. Munið þið áður en veiran barst til Íslands? Hvert var heitasta málið í þessum sal? Það var heilbrigðiskerfið. Orð eins og neyðarástand heyrðist frá bráðamóttökunni. Það er áhyggjuefni og núna er heilbrigðiskerfið á yfirsnúningi og stendur sig afburðavel. Það starfsfólk sem er þar í framlínunni á allt skilið að fá fálkaorðuna 1. janúar nk., vinnur við ótrúlega erfiðar aðstæður þar sem heilbrigðisstarfsfólk leggur sig meira að segja í hættu. Það getur smitast eða smitað sína nánustu þegar heim er komið. Ég veit að það er líka samstaða í þessum sal um að gera vel við heilbrigðiskerfið en við í stjórnarandstöðunni gerum ekki bara tillögu um að hvetja ríkisstjórnina til að semja við heilbrigðisstéttir. Hugsið ykkur, hjúkrunarfræðingar hafa ekki einu sinni kjarasamning, eru með lausa samninga við ríkisstjórnina á þessum tíma af öllum tímum. Hið sama má segja um nokkrar aðrar heilbrigðisstéttir. Við í stjórnarandstöðunni leggjum sömuleiðis til að heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk í félagsþjónustu sem hefur unnið við umönnun Covid-smitaðra sjúklinga fái sérstaka eingreiðslu. Önnur ríki eru að gera þetta. Mér finnst það smart leið.

Meiri hlutinn leggur til eingreiðslu til öryrkja. Við styðjum það. Við viljum reyndar útvíkka það og tryggja eingreiðslur líka til eldri borgara. Við höfum alveg efni á því. Þetta er ekki loforð út í loftið, bara alls ekki. Það er nokkuð sem við þurfum að huga sérstaklega að.

Ég ætla aðeins að hlaupa yfir hvað er jákvætt í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, svo sem átakið Allir vinna, endurgreiðsla virðisaukaskattsins vegna vinnu iðnaðarmanna. Það er jákvætt skref. Þetta er skref sem m.a. Samfylkingin stóð að eftir bankahrunið. Barnabótaaukinn er að sjálfsögðu jákvæður. Ég held að enginn flokkur sé búinn að tala jafn mikið um barnabætur og Samfylkingin, ekki síst Oddný Harðardóttir. Við þurfum að spýta allverulega í í barnabótakerfinu. Það má ekki gleyma að einn fjórði var dottinn úr barnabótakerfinu áður út af skerðingarhlutföllum af því að laun hafa hækkað og tekjutengingin hefur setið eftir. Barnabótaaukinn sem kemur í þessum aðgerðapakka er upp á 3 milljarða. Hvað eru 3 milljarðar? Það er 0,3% aukning á ríkisútgjöldunum. Auðvitað fagnar maður hverri krónu sem ríkisstjórnin setur til barnafjölskyldna en ansi finnst mér þetta lítið.

Gjafabréfið sem er í þessum pakka vegna kaupa á innlendri ferðaþjónustu hljómar vel en þetta er aðeins of naumt. Þetta er 5.000-kall á mann. Mér finnst það samt sniðug hugmynd. Við þurfum að efla íslenska ferðaþjónustu, við þurfum að sækja Ísland heim. Við þurfum öll að vera dugleg að ferðast um landið okkar og njóta þess sem það hefur upp á að bjóða.

Frestun opinberra gjalda og brúarlánin eru jákvæð skref en ég ítreka það sem ég sagði í andsvari við formann nefndarinnar: Við verðum að upplýsa hvaða fyrirtæki fá brúarlánin því að þau eru með 70% ríkisábyrgð. Það er meira að segja gert ráð fyrir að stór hluti af þessum lánum geti tapast, allt að 50 milljarðar. Þetta er ein stærsta aðgerð ríkisstjórnarinnar og það gengur ekki að hér geti fyrirtæki notið þessarar fyrirgreiðslu, brúarlánanna sem eru ríkistryggð, og það sé ekki upplýst hvaða fyrirtæki þetta eru. Almenningur á rétt á því en ekki síst fyrirtæki sem eru í samkeppni við kannski þau fyrirtæki sem njóta þessarar fyrirgreiðslu. Allt upp á borðið hvað þetta varðar, gagnsæi og jafnræði. Ég fagna því að formaður fjárlaganefndar ætlar að skoða þetta með okkur í nefndinni við tækifæri.

Hlutabæturnar eru jákvæðar. Það er búið að afgreiða þær. Takið eftir hvað gerðist þá. Þingheimur bætti það mál til muna miðað við hvernig það kom frá ráðherranum. Við skulum líka aðeins lyfta þinginu. Við erum a.m.k. eitthvað að standa okkur hérna megin í þessum sal, við erum að bæta málin sem koma frá ríkisstjórninni.

Annað mál sem bættist í meðförum þingheims var að banna arðgreiðslur til þeirra fyrirtækja sem njóta fyrirgreiðslu í formi brúarlána. Það kom ekki frá ráðherranum, það kom frá þingheiminum. Þingmenn úr öllum flokkum studdu það, höldum því til haga þannig að við getum líka klappað okkur öllum aðeins á öxlina við og við.

Að sjálfsögðu eru ýmsar jákvæðar tillögur í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Margt má rekja til stjórnarandstöðunnar en auðvitað í samtali við stjórnarþingmennina. Þarna er verið að styrkja heilbrigðisstofnanir, það er verið að setja 100 milljónir sérstaklega til að styrkja úrræði vegna heimilislausra. Það var ekki síst hv. þm. Inga Sæland sem hélt því á lofti, rétt að halda því til haga.

Ég fagna sérstaklega þeim 40 milljónum sem settar eru í að vinna gegn kvíða og einmanaleika. Við sjáum að fólk er að einangrast út af þessu ástandi, eldri borgarar og fólk glímir við alls konar andlega kvilla þannig að við þurfum að ná til fólks með próaktífum hætti. Ég fagna þessari tillögu mjög.

Ég fagna eingreiðslum til öryrkja og þeim samgöngubótum sem er verið að auka. Við setjum fjármuni í loftslagsmál og aukum þar áhersluna. Rannsóknasjóðurinn fær 300 milljónir. Mér finnst það bara of lítið fyrir Rannsóknasjóð og Innviðasjóð sömuleiðis. Mér finnst það of lítið, þetta er svo auðveld leið fyrir okkur til að sýna aðeins á spilin okkar.

Ég hef áhyggjur af endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðarinnar sem fær ekki neitt núna. Það er verið að boða að það þurfi að setja meira í hana. Ég hef haldið nokkrar ræður um að við eigum að lyfta upp menningunni og listunum sem ekki síst núna hafa tekið á sig högg. Eitt af sóknarfærum framtíðarinnar er þessi geiri. Hver króna sem við setjum í menningu og listir skilar sér til baka. Ég gerði einu sinni skýrslu um arðsemi kvikmynda- og sjónvarpsmarkaðar á Íslandi og það voru alveg sláandi tölur um hvað það borgaði sig að setja fjármuni í sjónvarps- og kvikmyndagerð á Íslandi.

Hérna eru styrkir til grænmetisframleiðslu og húsafriðunarsjóðs sem hv. þm. Birgir Þórarinsson hélt mikið á lofti. Það á að styrkja menningarverðmætin. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom með tillögu um Brothættar byggðir sem rataði hingað inn o.s.frv. Hv. þm. Willum Þór Þórsson var að sjálfsögðu með sínar tillögur þannig að ég held að allir þingmenn í fjárlaganefnd hafi lagt eitthvað af mörkum. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom að sjálfsögðu með tillögu um flugið og ber að varpa ljósi á það. Auðvitað batnaði málið en þetta dugar ekki. Ég veit að þingmenn eru í langflestum tilvikum alveg sammála því.

Þetta voru breytingartillögur meiri hlutans sem við styðjum þótt við séum í minni hluta. Svo má auðvitað skoða upprunalega plaggið og þar eru líka margs konar jákvæðar framkvæmdir. Hér er ágætur listi fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða hvað á að ráðast í. Munið að þetta eru samanlagt eftir breytingar fjárlaganefndar 20–25 milljarðar ef við tökum gjafabréfið og barnabótaaukann með. Það er ekki nóg. Ég er alls ekki að segja þetta í þeim tilgangi að vera með eitthvert yfirboð. Hér er bara engin stemning fyrir klassísku pólitísku yfirboði. Það má alls ekki túlka orð mín þannig að það sé hugsunin. Hugsunin er einlæglega sú að mæta þessari erfiðu stöðu núna. Ég er sannfærður um að við getum fengið lista frá Vegagerðinni um framkvæmdir sem hægt er að ráðast í núna umfram það sem er í tillögum meiri hlutans. Ég er sannfærður um að ef við heyrum í rannsóknasjóðunum eru þeir tilbúnir að taka við meira fjármagni. Ég er sannfærður um að þeir sem vinna í velferðinni sjá tækifæri til að fá aukna fjármuni frá hinu opinbera til að mæta faraldrinum sérstaklega eða t.d. setja mikinn kraft í að byggja hjúkrunarheimili sem myndi bæði skapa störf og leysa bráðavanda en ekki síst létta af heilbrigðisstofnunum um allt land.

Nú ætla ég að fjalla um nokkrar viðbótaraðgerðir, bara uppbyggilegar hugmyndir í púkkið. Við þurfum að hugsa aðeins meira um heimilin. Þetta er voðalega fyrirtækjamiðað. Að sjálfsögðu veit ég að fólk vinnur hjá fyrirtækjum og ég veit að við þurfum að verja störf. Mörg störf eru í hættu. Við megum samt ekki gleyma heimilunum. Við vorum aldeilis gagnrýnd fyrir það á sínum tíma, eftir bankahrunið. Ég þekki það ágætlega. Hugum að heimilunum til að mæta þessu áfalli. Ég hef sérstakar áhyggjur af þeim heimilum þar sem fólk missir vinnuna. Fólk getur ekki verið tekjulaust í marga mánuði. Við lifum í dýru landi. Við eigum að tala fyrir því að einstaklingar sem þess þurfa eigi að fá rétt til að frysta lánin sín sér að kostnaðarlausu, ekki láta bankana græða á því að menn geti fryst lánin sín eða fengið fresti með einhverjum hætti. Við þurfum að vakta það. Vöktum bankana. Það vill svo til að við eigum tvo af þremur bönkum. Ég veit að þeir eru sjálfstæðir og það er eigendastefna og annað slíkt en höfum samt í huga að tveir af af þremur viðskiptabönkum Íslands eru ríkisbankar. Það má alveg höfða til samfélagslegrar ábyrgðar lánastofnana. Lánastofnanir eiga að sýna ábyrgð í svona ástandi.

Við þurfum að hugsa um einyrkjana, örfyrirtækin, litlu fyrirtækin. Þau eru 70% af íslensku atvinnulífi. Þau eru ábyrg fyrir 70% störfunum og 70% af laununum. Stóru fyrirtækin ná sínu í gegn. Þau eiga beint samtal við fjármálaráðuneytið. Samtök atvinnulífsins hugsa um stóru fyrirtækin. Það sýnir reynslan okkur. Við megum ekki gleyma litlu fyrirtækjunum, fyrirtækjum sem fá ekki brúarlán. Frestun opinberra gjalda mun ekki bjarga þeim.

Ég vil sjá beina styrki til slíkra fyrirtækja með einum eða öðrum hætti. Ræðum aðeins fyrirtækin sem eru komin í frost. Það eru fyrirtæki sem hafa orðið fyrir algjöru tekjutapi og markaðurinn þurrkast upp. Þetta er ekki bara ferðaþjónustan, þetta eru líka fyrirtæki sem neyðast til að loka vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda. Fáir tala um þau fyrirtæki. Fjölmörg fyrirtæki hafa neyðst til að loka út af tilmælum sóttvarnayfirvalda sem allir virða að sjálfsögðu og eiga að virða. Við hlýðum Víði, en hugum aðeins að þessu. Það eru ekki mörg fyrirtæki sem geta lifað einn, tvo, þrjá mánuði með engar tekjur. Pælum í niðurfellingu gjalda eins og tryggingagjalds. Minni hluti fimm flokka leggur til að fella tímabundið niður tryggingagjald lítilla fyrirtækja.

Hvað með að skoða tímabundið bann við fullnustuaðgerðum gagnvart þeim sem lenda í vandræðum, fyrirtækjum og fólki? Þetta eru meira próaktífar leiðir til að mæta vandanum, hvort sem það eru fjölskyldur, atvinnulausir eða lítil fyrirtæki. Pössum litlu fyrirtækin með einn, tvo, þrjá og upp í tíu starfsmenn. Fyrirtæki með sjö eða tíu starfsmenn eru fyrirtæki sem verða alltaf út undan.

Ég er aðeins búinn að fara yfir nýsköpun. Ég hef sagt áður í þessum ræðustól að meginleiðin okkar upp úr þessu ástandi sé nýsköpun. Við eigum að leggja áherslu á nýsköpun, rannsóknir og grænar fjárfestingar. Eflum sjóðina sem ég gat um áðan. Við þurfum að byggja upp.

Sagan á bak við Meniga, eitt framsæknasta og skemmtilegasta fyrirtækið sem nú er á Íslandi, er sú að aðilar stofnuðu Meniga eftir að þeir misstu vinnuna í bankahruninu. Fjölmargir aðilar eru núna að fara að missa vinnuna, eru með hugmyndir sem geta vaxið í stórfyrirtæki ef hið opinbera hugar að þeim fyrirtækjum með einum eða öðrum hætti. Hið opinbera hefur svo miklu hlutverki að gegna. Á nýsköpunarmarkaðnum, menntamarkaðnum ef svo má segja, verður til markaðsbrestur. Ef við ætlum að láta einkaaðila sjá um það gerist minna þannig að hægri eða vinstri skiptir ekki máli, ríkið á að koma með einum eða öðrum hætti inn í þann hluta markaðarins þar sem verður svokallaður markaðsbrestur.

Ég ætla aftur að flagga hinum frábæru tillögum stjórnarandstöðunnar sem er mynduð úr fimm ólíkum flokkum, Miðflokknum, Samfylkingunni, Pírötum, Viðreisn og Flokki fólksins. Við völdum ekki það hlutskipti að vera saman í stjórnarandstöðu. Það voru stjórnarflokkarnir sem völdu það hlutskipti fyrir okkur en okkur tókst, eins ólík og við erum, að setja saman pakka upp á 30 milljarða. Við getum sýnt þá samstöðu þó að við séum hugmyndafræðilega pólitískir andstæðingar. Við náðum að sýna þann þroska og þann samstarfsvilja að setja á pappír aðgerðalista upp á 30 milljarða sem svarar einmitt því sem heimili og fyrirtæki eru að kalla eftir. Komið með okkur í þann leiðangur, ágætu stjórnarþingmenn.

Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar ætlist þið til að við samþykkjum allt frá ykkur og við gerum það eftir því sem ég best veit. Af hverju samþykkið þið ekki eitthvað frá okkur? Ég veit að við höfum náð ýmsu í gegn í nefndavinnunni, ég vil halda því til haga. Sumt þar hefur batnað út af okkur og í góðu samstarfi, en við getum gert meira og það þýðir ekki að bjóða okkur enn og aftur upp á sönginn: Ég vildi að ég gæti gert meira en ég get það ekki. Jú, hv. þingmaður stjórnarinnar, þú getur gert meira af því að þú hefur valdið.

Ég er aðeins búinn að nefna atvinnuleysi. Ég hef sérstakar áhyggjur af atvinnuhorfum námsmanna. Við þurfum aðeins að pæla í þeim. Atvinnuhorfur námsmanna eru að verða að engu í vor og sumar. Hugsum aðeins um þann hóp. Við erum að sjálfsögðu að hugsa þennan aðgerðalista út frá kynjavinklinum. Störf eru að tapast sem verður kannski ekki endilega mætt með steinsteypu eða vegagerð. Jú, í sumum tilvikum, en alls ekki alltaf. Við þurfum að hafa breiða linsu þegar kemur að þessum aðgerðum. Stjórnarandstaðan leggur til 9 milljarða til viðbótar í vegaframkvæmdir og viðhald. Við nefnum ef þess er kostur að flýta framkvæmdum við Reykjanesbraut, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og aðra vegi. Við viljum setja kraft í göngu- og hjólastíga og í skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu. Við erum líka með fjölmargar tillögur, stórar og smáar. Það má alveg gera grín að smáu tillögunum en þær skipta máli í fjárfestingar- og fasteignakaflanum okkar. Þetta eru allt atriði sem hægt er að ráðast í tiltölulega hratt. Við erum enn í mars, ég veit að sumt krefst undirbúnings en sumt krefst bara einskis undirbúnings. Sumt liggur bara tilbúið.

Ég vona að þetta geti kveikt í stjórnarþingmönnum, að þeir séu til í að skoða eitthvað af þessum tillögum. Þetta eru mýmargar aðgerðir sem væru mjög gagnlegar. Allir fengju kredit ef við réðumst í þetta ef menn hafa einhverjar áhyggjur af svoleiðis bulli.

Ég er aðeins búinn að tala um velferðarmálin. Við erum með fjóra kafla í stjórnarandstöðunni, þar á meðal nýsköpun sem er stærsti kaflinn okkar. Vegaframkvæmdir og viðhald eru næststærsti kaflinn. Svo koma velferðarmálin og loks fasteignir og aðrar fjárfestingar. Þessi 30 milljarða pakki okkar mun ekki duga, ég átta mig á því, en hvað þá með 15–20 milljarða kr. pakka ríkisstjórnarinnar? Við styðjum hann þannig að okkar pakki er ofan á hennar. Við þurfum að gera meira og við þurfum að gera það núna. Ég veit að við fáum alltaf svarið: Það kemur seinna, en ég vil gera það núna. Ég tel þörf á því. Ég tel að í bankahruninu höfum við hreyft okkur of hægt. Sumt tekur lengri tíma en annað, ég átta mig á því, en það er margt sem við getum einhent okkur í núna. Við fengum fín plögg frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélögum á Suðurnesjunum, þar sem vandinn er gríðarlegur, um aðgerðir sem hægt væri að ráðast í með aðkomu ríkisins.

Í velferðarkaflanum vildi ég aðeins nefna það sem við viljum halda á lofti vegna þess að við leggjum t.d. til fjármuni til SÁÁ. Það er ekki síst hv. þm. Inga Sæland sem hélt því á lofti, en hún benti okkur á að sjálfsaflafé SÁÁ hefur hrunið út af faraldrinum. Sömuleiðis hafa fjölskyldur langveikra barna bent á að þau hafi orðið fyrir gríðarlegu tekjutapi vegna ástandsins. Allt heilbrigðiskerfið verður að sjálfsögðu fyrir miklum kostnaði. Við setjum fjármuni í það. Þar dugar engan veginn til.

Við viljum setja fé í vaxta- og húsnæðisbætur. Það er ekkert í þessum tillögum hér. Það er sniðug tillaga sem nær til tekjulágra einstaklinga sem verða fyrir kaupmáttarrýrnun.

Þetta er langur og góður listi sem ég bið hv. þingmenn að horfa á með opnum augum. Önnur atriði sem við þurfum að hafa í huga er staða sveitarfélaganna. Við þurfum að hugsa sérstaklega til þeirra sem eru í nærsamfélaginu og finna fyrir þessum samdrætti, finna fyrir þeim verkefnum sem brenna á fólki.

Svona mætti lengi tala en ég sé að tími minn er núna runninn út. Í svona efnahagslegu neyðarástandi (Forseti hringir.) er mikilvægt að hugsa hratt en það er líka nauðsynlegt að hugsa aðeins út fyrir boxið, hugsa um frumlegar og skynsamlegar hugmyndir. Við eigum að kalla þær hugmyndir að borðinu frá almenningi og litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem finna fyrir þessari niðursveiflu á eigin skinni.