150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[15:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka það fram hér strax að ég ætla bara að koma upp í fyrra andsvar, eitt andsvar, af því að ég er ekki að koma hingað upp til að rengja eitt eða neitt í jákvæðri prýðisræðu hv. þingmanns. Við áttum mjög góðar umræður í nefndinni og hann lagði gott eitt til. Það sama get ég sagt um þær breytingartillögur sem liggja fyrir. Við reyndum á þessum skamma tíma að skoða hluta af þeim tillögum og ég vil varpa því hér fram að við fengum hingað formann Landssambands eldri borgara. Ég hef vísað í mál sem liggur fyrir þinginu sem grípur hærra í fjárhæðum en tillagan nær til þessa lægst setta hóps. Svo er í skoðun með næstu tvær tekjutíundir og formaðurinn hvatti okkur til að klára þessi mál fyrir þinginu. Ég er til í þá vegferð.

Hér er fjölmargt annað. Ég veit að allt sem hv. þingmaður sagði um efnahagsmálin er hárrétt en sú umræða verður að bíða betri tíma. Ég vil fyrst og fremst nota tækifærið til að þakka hv. þingmanni góða samvinnu í nefndinni. Í nefndinni var heilt yfir mjög góð samvinna og fjölmörg verkefni sem við fórum yfir. Ég ítreka að þetta er ekki spurning um mitt viðhorf til þess að geta gert hlutina. Eins og hv. þingmaður benti á er vilji til að gera margt en það er kannski frekar hvað er skynsamlegt að gera og hvernig við horfum til verkefna í þeirri gríðarlegu óvissu sem er núna.

Ég get til að mynda bent á að stór hluti kemur inn á launaskrá ríkisins í gegnum hlutastarfaleiðina. Nefndir hafa verið 22 milljarðar en það getur orðið miklu meira. Hv. þingmaður kom inn á Keynes, það verður sjálfvirk (Forseti hringir.) sveiflujöfnun í gegnum ríkisfjármálin. Það er fjölmargt annað en ég þakka hv. þingmanni samvinnuna og góða ræðu.