150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þakkirnar. Mér þykir vænt um þær og ég vil líka, úr því að við erum komnir í skjallbandalag, hrósa hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir ágætissamstarf og gott samstarf í nefndinni. Ég veit að hann er mjög liðlegur að reyna að hnika til. Ég veit að hann er með marga bolta á lofti á sama tíma. Ég ítreka að ég er bandamaður hans í að þrýsta á frekari verkefni og fjárfestingar. Ég veit að hv. þingmaður er sömuleiðis bandamaður minn í því. Við erum það öll saman, hvar sem við erum, því að nú er tími samstöðu þótt við í stjórnarandstöðunni viljum sýna að það sé hægt að gera meira.

Þetta eru erfiðir tímar fyrir alla. Eins og hv. þingmaður gat um er óvissa í ríkisfjármálum og efnahag. Við sjáum að 20.000 manns eru komin í hlutabótakerfið. Hugsið ykkur. Fjöldi opinberra starfsmanna er 25.000, minnir mig, og 20.000 eru komin nú þegar í hlutabótakerfið sem felst í að ríkið greiðir 75% af laununum. 1 prósentustig í auknu atvinnuleysi kostar 6,5 milljarða. Atvinnuleysið fer mjög hratt upp þannig að þetta verða mjög skrýtnir og krefjandi tímar fyrir hv. fjárlaganefnd og formann fjárlaganefndar að mæta þeirri stöðu. Eins og stundum er sagt mun staðan versna áður en hún batnar. Það er mikilvægt að huga að því að hún mun batna. Við höfum hér auðlindir, öflug fyrirtæki sem byggja á hugviti og gríðarlegan mannauð þannig í öllu þessu efnahagslega svartnætti sem er kannski að hluta til fram undan er alltaf ljós. Stöndum þá bara saman, hlúum að því sem skiptir máli, hlúum að heimilunum, hlúum að nýsköpun í rannsóknum, listum, menningu. Hlúum hvert að öðru eins og hv. þingmaður gat um varðandi eldri borgara. Heyrum í eldri borgurum, heyrum í þeim sem eru núna að einangrast af því að félagsstarfið hefur dregist saman, heyrum í þeim sem eru í sóttkví, hvort sem það er sóttkví af því að þeir kjósa sjálfir að vera sóttkví eða þurfa að vera sóttkví. Látum (Forseti hringir.) okkur annt um náungann og tékkum á þeim og hvernig okkur líður því að það er það sem skiptir máli, hvernig okkur líður í þessu ágæta samfélagi sem núna er að ganga í gegnum erfiða tíma.