150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[15:21]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar rétt að koma inn á nokkra punkta til að leiðrétta aðeins umræðuna. Það eru ekki 30.000 starfsmenn í íslenskri ferðaþjónustu. Ég held að það hafi komið fram í máli forstjóra Vinnumálastofnunar fyrir örfáum dögum að það er talað um 23.000. Það er alltaf gott að vera með tölurnar réttar þegar við erum að vinna í þessum stóru málum.

Það hefur verið töluverð umræða um Tækniþróunarsjóð og hvernig við eigum að takast á við vandann. Ég hef skoðað þetta í framhaldi af góðri umræðu okkar í nefndinni. Árið 2010 voru settar, á verðlagi 2019, 929 milljónir í Tækniþróunarsjóð. Í fyrra, 2019, voru það 2.333 milljónir. Nú er verið að bæta við, bæði 400 milljónum með framlögum ríkisstjórnar í frumvarpi til fjáraukalaga og síðan bætir meiri hluti fjárlaganefndar við 300 milljónum þannig að talan er komin í rúma 3 milljarða. Rúm 30% bætast við á milli ára til Tækniþróunarsjóðs, svo því sé haldið til haga. Svipað hlutfall má sjá í endurgreiðslum til fyrirtækja vegna rannsókna og slíkra þátta, það hefur líka vaxið gríðarlega mikið á undanförnum árum. Við sjáum mikla hækkun á þeim hlutföllum.

Fjárfestingarplanið eins og það lítur út núna er upp á 23 milljarða með 15 milljörðum frá ríkisstjórn, 5 milljörðum frá C-hluta fyrirtækjum og opinberum aðilum og í gegnum meiri hluta fjárlaganefndar núna bætast við rétt tæpir 3 milljarðar. Þá eru þetta 23 milljarðar og virðast þá um 800 ársverk bætast við í gegnum (Forseti hringir.) fjárfestingarplanið.