150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef við pælum aðeins í pólitíkinni er rétt að þetta er ekki lokaskrefið. Þetta er samt fyrst skrefið og þetta er skrefið þar sem ríkisstjórnin er að sýna á spilin. Spilin sem við sjáum þar eru þau sem ríkisstjórnarflokkarnir geta komið sér saman um og það eru steypa, steypa, steypa og malbik. Það er lægsti samnefnari þessara flokka sem eru í ríkisstjórn núna og þess vegna fer mestur peningur þangað, það er augljóst. Við erum með einna bestu greiningarnar í gegnum Vegagerðina, samgönguáætlun og þess háttar. Það sem ég hef reynt að benda á í allri minni umfjöllun um fjármálaáætlun, fjárlög o.s.frv. er að alls staðar á að vera slík greining á þeim verkefnum sem eru í boði með kostnaðar- og ábatagreiningu með t.d. hversu mannaflsfrek þau eru fyrir atvinnu og þess háttar. Þegar kemur áfall, það þarf að grípa inn í og búa til einhverja brú til að komast yfir getum við valið nákvæmlega þau verkefni úr listanum til að tækla það vandamál alveg frá A til Ö.

Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson nefndi áðan að 800 störf eða svo sköpuðust í þessu fjárfestingarátaki. Ef við skoðum þá 20.000 sem eru að koma á hlutabæturnar, velflestir af þeim var sagt í fréttum að væru að fara á 45%, sem er einmitt minnkunin, við erum komin kannski í 8.000 störf þar í rauninni á launum ríkisins. Þetta bjargar 800 af þeim, 10%. Það er stærðargráðan sem við erum að horfa á og þess vegna sýnir stjórnarandstaðan á spilin með breytingartillögum sínum. Það er möguleiki á fleiri aðgerðum og ég býst fastlega við því að næstu skref ríkisstjórnarinnar verði að velja úr breytingartillögum minni hlutans, (Forseti hringir.) að það endurspeglist dálítið í næstu skrefum. Það kæmi mér ekki á óvart.