150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:06]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er gaman að vera í sama rými á nýjan leik til að ræða þessi mál. Það hafa verið margir fjarfundir og margar klukkustundir á þeim síðustu vikuna. Ég vil geta þess í byrjun að þetta er ekki bara steinsteypa eða ársverkin. Það kemur t.d. fram með Stafrænt Ísland og það fjármagn sem rennur þar inn. Mig minnir að talað hafi verið um 130–150 störf forritara bara í því máli. Það þarf að vera ákveðin sanngirni líka. Þetta er nýtt, þarna er verið að gera stóra hluti.

Hv. þingmaður kemur inn á Tækniþróunarsjóð í breytingartillögum sínum og ég kom aðeins inn á það áðan. Tækniþróunarsjóðurinn endar í 3 milljörðum á þessu ári þannig að ef við bætum 1 milljarði við það er það 25% aukning, ekki helmingur eins og kemur fram í umræðunni.

Það sem vakti athygli mína áðan var umræða um efnahagslegan stöðugleika og hvernig hv. þingmaður lítur á hann. Ég tel hann gríðarlega mikilvægan og að ríkið spili með. Ég held að það sé einmitt ástæðan fyrir því að við getum brugðist við með góðum og skynsamlegum hætti og komið sterkt inn. Varðandi Covid-19 faraldurinn er búið að vera að safna í kornhlöðuna árum saman, í sex til átta ár hefur verið safnað töluverðu í þá hlöðu til að bregðast við faraldri eins og nú geisar.

Síðan vil ég líka benda á að það skiptir miklu máli að við Íslendingar höfum byggt upp ýmiss konar kerfi til að verjast slæmum aðstæðum sem koma upp. Ég fer kannski meira inn í það á eftir, bara til að benda á það með Covid-faraldurinn og þau faraldursfræði sem er búið að vinna á Íslandi, það er búið að vinna kerfisbundið að því að skapa áætlun um þetta mál. Ég held að það hafi komið fram hjá sóttvarnalækni (Forseti hringir.) að það séu 14–15 ár, þannig að við erum ekki alltaf óviðbúin. Ég vil ekki tala niður íslenskt heilbrigðiskerfi eins og það vinnur og hefur starfað og skapað sér sterka stöðu á undanförnum árum.