150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég reikna með að hæstv. forseti virði það við mig að koma í andsvar þrátt fyrir að hv. þm. Birgir Þórarinsson, nefndarmaður hv. fjárlaganefndar, sé á áliti meiri hluta með fyrirvara sem hann hefur gert ágætlega grein fyrir. Ég vildi engu að síður koma hingað og þakka prýðisræðu, samvinnuhug og sterkt hugarfar í nefndinni. Þær breytingar urðu í meðförum nefndarinnar að setja skýrt og skorinort í lagagrein að þau fyrirtæki sem njóta fyrirgreiðslu í viðbótarrekstrarlánum borgi sér ekki út arð á þeim tíma og líklegt er að þau fyrirtæki sem fara í þetta úrræði telji það mjög ólíklegt í þeirri stöðu. Það er jafnframt mjög mikilvægt að hingað komi sú nefnd sem á að tryggja jafnræðið og gagnsæið sem hv. þingmaður fór réttilega yfir. Okkur í hv. fjárlaganefnd er mjög mikið í mun að það gangi eftir og ekki síður upplýsingagjöfin sem þessi nefnd veitir ráðherra og svo þingnefndum.

Ég þakka sérstaklega fyrir góða samvinnu í nefndinni. Ég vil þó draga eitt fram varðandi það sem við vorum að kljást við og niðurstöðuna, þetta er ekki lokaúrræði. Minni hlutinn er með fjölmargar góðar tillögur, ein af þeim til að mynda sem endurspeglar kannski stöðuna á þeim stutta tíma sem við höfum til að ráða fram úr verkefnunum (Forseti hringir.) varðar Verkmenntaskólann á Akureyri. Hann er hluti af þeim framkvæmdum sem koma fram í þingsályktunartillögunni sjálfri.