150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

696. mál
[18:31]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til 2. umr. frumvarp umhverfis- og samgöngunefndar um að fresta sveitarstjórnarkosningu á Austurlandi. Málið heitir á þingskjalinu frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Sem kunnugt er sameinuðust fjögur sveitarfélög fyrir austan. Til stóð að hafa kosningar til sveitarstjórnar á næstunni, 18. apríl, en af augljósum orsökum þarf að fresta þessari kosningu og það er gert með þessu frumvarpi. Ég ætla, með leyfi frú forseta, að lesa aðeins úr 1. gr.:

„Þrátt fyrir ákvæði 125. gr. er ráðuneytinu heimilt, að fenginni tillögu stjórnar til undirbúnings að stofnun nýs sveitarfélags vegna sameiningar sveitarfélaganna Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar og samþykki viðkomandi sveitarstjórna, að afturkalla ákvörðun sína frá 14. febrúar 2020 um það með hvaða hætti sameining sveitarfélaganna í eitt sveitarfélag öðlast gildi, samanber 1. mgr. greinarinnar. Falla þar með allar tengdar ákvarðanir ráðuneytisins samkvæmt 125. gr. úr gildi, svo sem um boðun sveitarstjórnarkosninga, þar með talið kosningar til heimastjórna, hinn 18. apríl 2020.

Ráðuneytið skal, að tillögu stjórnar til undirbúnings að stofnun hins nýja sveitarfélags, taka nýja ákvörðun um það með hvaða hætti sameining öðlast gildi.“

Í 2. gr. er fjallað um að lög þessi öðlist gildi þegar frumvarpið hefur verið samþykkt. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd stendur sameinuð að framlagningu þessa frumvarps og þess vegna þarf ekki sérstakt nefndarálit. Þegar ég flutti málið í síðustu viku fór enginn hv. þingmaður fram á að slíkt nefndarálit yrði samið. Engar umræður urðu heldur um efni þess og því er við að bæta úr greinargerðinni að þetta frumvarp var unnið í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og undirbúningsstjórn um nýtt sveitarfélag vegna sameiningar þessara fjögurra sveitarfélaga. Ég geri því ekki ráð fyrir að neitt breytist við þá 2. umr. sem hér fer fram og orðlengi það ekki frekar. Ég hef ekki meira um málið að segja en því er auðvitað vísað til 3. umr.

Ég hef þar með, frú forseti, lokið máli mínu.