150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[19:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um breytingartillögur við aðgerðapakka stjórnvalda þar sem við grípum til varna fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu. Við grípum til verndaraðgerða til að vernda einstaklinga og fjölskyldur í erfiðum aðstæðum og við grípum til viðspyrnu fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf.

Ég styð allar breytingartillögur hv. efnahags- og viðskiptanefndar og tel að hún hafi unnið vel að þessu máli. Þessi fyrsti áfangi björgunaraðgerða íslenskra stjórnvalda vegna þess efnahagsáfalls sem fyrirsjáanlegt er af völdum kórónuveirunnar mun skipta fólkið í landinu verulegu máli við að tryggja hér atvinnustig, halda uppi efnahagslegri starfsemi í landinu og tryggja það að íslenskt samfélag komi standandi úr þessum hremmingum og að við getum snarpt gripið til viðspyrnu.