150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[19:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir samstarfið í þessu máli og öllu því góða starfsfólki sem aðstoðaði okkur við að gera nefndarálitið og breytingartillögurnar að veruleika. Það er furðulegt að standa hér og mæla fyrir því að fresta gjalddögum og veita skuldum einkafyrirtækja ríkisábyrgðir. Þetta eru líka furðulegir tímar.

Ég styð að sjálfsögðu þær breytingartillögur sem við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggjum hér fyrir en ég ítreka það sem fram kemur í nefndaráliti og kom fram í umræðunum í morgun að þetta er ekki fyrsta heldur annað skrefið og örugglega ekki það síðasta í þeim aðgerðum sem við þurfum að grípa til.

Þá langar mig sérstaklega að nefna að við verðum að horfa frekar til atvinnugreina þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Í þeim breytingartillögum sem við gerðum með Allir vinna horfum við sérstaklega til karlastétta. Ég styð þær breytingartillögur heils hugar en æski þess að við hugsum líka út fyrir boxið til að koma til móts við atvinnugreinar þar sem fjöldi kvenna starfar og sérstaklega þær atvinnugreinar þar sem hefur þurft að loka á síðustu dögum.