151. löggjafarþing — 84. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[04:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Já, það er mikilvægt að styrkja varnirnar á landamærunum til þess að við getum lifað eðlilegu lífi hérna innan lands. En ef við byggjum varnirnar á landamærunum á lögum sem síðan verður hlaupið með fyrir dómstóla og þau felld úr gildi vegna þess að þar eru börn t.d. ekki sett í forgang — það er staðreynd og hefur komið fram hérna og kom fram fyrir velferðarnefnd, umboðsmaður barna benti á atriði þar — hvað gerist þá? Þá er búið að byggja upp einhverjar varnir sem hrynja einmitt þegar við þurfum á þeim að halda í staðinn fyrir að taka einn dag í viðbót, sem allir væru tilbúnir að gera á morgun, og geta hlustað á alla þá sem komu fyrir nefndina í allan dag. Reglugerðin verður ekki tilbúin fyrr en á mánudaginn hvort eð er. Við höfum morgundaginn til að styrkja þetta, til að taka mið af þessum sjónarmiðum, hlusta á þær breytingartillögur sem við höfum verið að vinna á hlaupum í dag til að tryggja að þær varnir sem verið er að byggja með þessum lögum, varnir á landamærum til að (Forseti hringir.) við getum lifað eðlilegu lífi innan lands, hrynji ekki bara síðan fyrir dómstólum í kjölfarið. Það er staðan.