Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[15:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Skýringin kann að vera sú að þetta eru alla jafna ekki hreinorkubílar ef skilgreiningin á hreinorkubílum er að þeir gangi einungis fyrir vistvænu eldsneyti. Flestir metanbílar eru þannig gerðir að þeir ganga bæði fyrir bensíni eða dísil og svo fyrir metani. Aftur á móti hafa þeir það umfram t.d. tengiltvinnbílana að þeir geta keyrt miklu lengri vegalengd á metaninu heldur en tengiltvinnbílarnir keyra á rafmagni. Það er þannig að t.d. ég, sem á slíka bifreið, get keyrt næstum því alla leið til Akureyrar áður en ég þarf að keyra á bensíni, vegna þess að það eru einfaldlega engar stöðvar til að fylla á metanið á leiðinni. Þetta eru bifreiðar sem eru framleiddar t.d. í Þýskalandi í stórum stíl, með tilbúnum metankút og eru, í endursölu en líka í innflutningi, töluvert ódýrari farartæki heldur en rafmagnsbílarnir. Þess vegna minnist ég á það en ég vil ekki klára allt andsvar mitt á því. Ég vísa í þetta líka þar sem það er talað um vistvæn ökutæki, ekki bara hreinorkutæki, í þessu frumvarpi en ég fann ekki almennilega skilgreiningu á því.

Mig langar líka að tala um þessar fjöldatakmarkanir sem eru kannski ágætar í sjálfu sér en ég velti fyrir mér hvort það væri ekki líka ráð að huga að fjöldatakmörkunum á bifreiðum að þessu marki, við þurfum ekki endilega og við ættum ekki að fjölga bifreiðum í umferð. Við hljótum að þurfa að fara að horfa til þess hversu margar bifreiðar viðkomandi rafmagnsbílakaupandi á fyrir með tilliti til þess hvort hann eigi rétt á endurgreiðslu. Ef viðkomandi er að kaupa rafmagnsbíl sem þriðja eða fjórða bíl á heimilið, á hann að fá gríðarlegan afslátt fyrir það ef hann á svo þrjá jeppa í heimreiðinni? Ég velti þessu upp vegna þess að mér finnst þetta ekki vistvænasta nálgunin gagnvart þessum málaflokki. Þarf ekki að fara í svolítið heildstæða stefnumörkun um hvert við erum að fara með þessum orkuskiptum og fara að huga að því hvernig við komum öllum þessum bensínbílum af landinu, úr notkun? Eða mögulega, (Forseti hringir.) að fara að ívilna fólki fyrir að breyta bensínbílum a.m.k. í metanbíla.