Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[16:14]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mér heyrist við vera sammála um að það þurfi með öðrum hætti að koma til móts við fólk sem hefur ekki tök á að nýta sér þetta. Það sem ég velti þó fyrir mér er hvað þingmanninum finnst um hugmyndir sem hafa komið fram um það hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að þetta verði bókstaflega til þess að fjölga bílum á götunum sem, líkt og þingmaðurinn benti á, vinnur líka gegn markmiðinu. Jafnvel þó að bílarnir mengi ekki sjálfir þá valda þeir mengun einfaldlega með því að keyra um göturnar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað henni finnst um hugmyndir um að takmarka þetta við það að einungis sé um að ræða útskipti á bíl sem fólk á fyrir, það sé ekki verið að bæta við bíl, t.d. að þetta myndi einungis gilda fyrir heimili þar sem er eingöngu ein bifreið eða fyrir bara eina bifreið eða eitthvað slíkt eða einhverjar slíkar leiðir til að koma í veg fyrir það að þetta vinni gegn markmiðunum, bæði loftslagsmarkmiðunum og markmiðum um jöfnuð og aðra þætti. Ég er sannarlega sammála hv. þingmanni um að það sé kannski ekki víst að öll úrræði vinni að jöfnuði. Það sem ég er að tala um er að við séum ekki að auka á ójöfnuð með þeim aðgerðum sem við grípum til. Þá velti ég líka fyrir mér hvort það væri hægt að takmarka þetta með einhverjum öðrum hætti, hvort þingmaðurinn hafi einhverjar aðrar hugmyndir um það hvernig við getum gert þetta án þess að vera að hvetja til þess að fólk sé að kaupa sér fleiri bíla eða slíkt af því að það er náttúrlega ekki það sem felur í sér lausn á loftslagsvandanum, sem er markmiðið sem stefnt er að.