Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[16:45]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Mig langaði að taka þetta svolítið lengra vegna þess að flækjustigið fyrir ferðamenn sem hingað koma er dálítið hátt. Ég ákvað að taka hérna upp lyklakippu af bíl dóttur minnar. Við sjáum að það er fullt af svona lyklum, fyrir mismunandi bensínstöðvar auðvitað því að þetta er bensínbíll sem hún er á. En ef ég hefði verið með rafmagnsbílinn hennar þá eru enn fleiri svona lyklar til að komast inn á hinar og þessar hleðslustöðvar víða um land. Nú veit ég t.d. að Evrópusambandið hefur sett reglur fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem vilja geta talað við banka og kerfi hjá bönkum, þar sem gerð er krafa á bankana að veita aðgang inn á sín kerfi. Og mér er spurn: Þurfum við ekki að opna tækifæri fyrir nýsköpunarfyrirtæki til að fá aðgang að öllum þessum mismunandi hleðslukerfum þannig að þegar fólk kemur hingað til lands til að ferðast og tekur bíl að þá geti það farið á hvaða hleðslustöð sem er frá hvaða aðila sem er. Við getum það í dag. Ég get farið með bensínbílinn minn og farið á hvaða bensínstöð sem er, kannski af því að það enduðu allir á því að vera með eins dælur. Endinn á dælunni, hann er eins, hann kemst í. Kannski var það öðruvísi fyrir 100 árum síðan. Ég veit það ekki. Þurfum við ekki að hugsa svolítið víðara og hugsa um hvernig við byggjum upp það umhverfi sem þarf til að framkvæma svoleiðis en ekki bara hleðslunetið.