Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[19:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta atvinnuveganefndar fyrir nefndaráliti í máli 475 um lífræna framleiðslu. Meginmarkmið þess frumvarps er innleiðing Evrópugerða sem varða lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara. Með þeim er ætlunin að einfalda regluverk sem gildir um lífræna framleiðslu, styrkja eftirlitskerfi með framleiðslunni, stuðla að aukinni dýravelferð og ábyrgri notkun orku og náttúruauðlinda og að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni. Þá er lagt til að lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu verði felld úr gildi í heild sinni.

Við fengum á okkar fund gesti og umsagnir eins og gjarnan er og það kemur fram í nefndarálitinu sem hér liggur fyrir. Bent var á það við umfjöllun málsins fyrir nefndinni að innflytjendur lífrænna vara frá Bretlandi hefðu lent í millibilsástandi vegna Brexit þar sem bresk vottun teldist ekki lengur gild við innflutning til Íslands. Fram kom að það ætti einungis við um vörur sem fluttar væru inn til Bretlands frá þriðja ríki og umpakkað í pakkningar með breskum merkingum. Hins vegar tæki jafngildisvottun til þeirra lífrænu vara sem framleiddar eru og vottaðar í Bretlandi. Fyrir nefndinni kom fram að brýnt væri að ljúka innleiðingu reglugerðarinnar í íslenskan rétt til að stuðla að lagasamræmi og virkni gerðra samninga.

Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið sem sett er fram í greinargerð frumvarpsins um að brýnt sé að vinna að því að reglugerðin öðlist sem fyrst gildi svo að ekki komi til mikillar röskunar á opinberu eftirliti með lífrænum afurðum og að inn- og útflutningshagsmunum verði ekki stefnt í uppnám.

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði því samþykkt óbreytt.

Undir álit meiri hlutans rita, ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þingmenn Stefán Vagn Stefánsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Helga Þórðardóttir, Helgi Héðinsson og Hildur Sverrisdóttir.