Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegur forseti. Fyrir nokkru komst ég að því, sem kom mér eilítið á óvart, að á meðan tæknifrjóvganir eru niðurgreiddar að hluta, og þar sem þeir sem þurfa þá aðstoð þurfa að greiða talsvert fé til að standa undir því mikla og erfiða verkefni í mörgum tilfellum, þá eru hins vegar samkvæmt lögum ófrjósemisaðgerðir niðurgreiddar að fullu. Ég skal viðurkenna, forseti, að það kom mér eilítið á óvart. Ég vil á engan hátt gera lítið úr því vali fólks sem kýs að fara í slíkar aðgerðir, tala nú að sjálfsögðu ekki um þegar það er lífsnauðsynlegt, en það er ekki umræðuefni hér heldur. Fyrir þá sem kjósa að fara í ófrjósemisaðgerðir er það 100% þeirra val og ég ætla ekki að gera lítið úr því, en ég viðurkenni að mér þætti rétt að við myndum skoða hvernig við getum jafnað þennan aðstöðumun að einhverju leyti. Það er ekki sjálfsagt að geta eignast börn. Ég held að við hér séum flest sammála um að gera það sem við getum gert til að reyna að aðstoða í því verkefni. Við Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, enn sem komið er, í nokkra daga alla vega, höfum verið að skoða niðurgreiðslukerfið gagnvart tæknifrjóvgunum í því augnamiði eða í þeirri einföldu pólitík að vilja hjálpa fólki að eignast börn. Því hef ég lagt fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra þar sem ég spyr einfaldlega hver sé kostnaður hins opinbera annars vegar við að niðurgreiða að hluta til tæknifrjóvganir og hins vegar að fullu ófrjósemisaðgerðir. Það er gert í því augnamiði að fá frekari upplýsingar áður en stigin eru næstu skref sem ég hefði áhuga á til að skoða hvernig við getum kannski jafnað þennan aðstöðumun innan kerfisins eilítið til að hjálpa fólki aðeins meira í því verkefni að geta eignast börn.