Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki leyft ESB-sinnum að einoka hér umræðuna dag eftir dag með enn einum snúningnum á ESB-umræðunni. Þessa daga á evran að bjarga hér öllu sem bjargað verður. Við það að við tökum upp evru mun verðbólgan hjaðna og vextir snarlækka og þar með húsnæðisafborganir. Matarkarfan verður ódýrari og ríkissjóður sparar heilmikil vaxtagjöld. Þetta finnst mér eitthvað öfugsnúið þegar ég fletti upp samanburðinum í þessum efnum á evrusvæðinu. Þar er verðbólga víða á pari við verðbólgu hér og sums staðar tvöföld, þar hafa útlánsvextir til fyrirtækja og heimila margfaldast, enda segja stýrivextir ekki alla söguna eins og ESB-sinnar hljóta að vita. Þar hafa mánaðarlegir orkureikningar rokið upp úr öllu valdi, jafnvel sem nemur húsnæðisafborgun. Þar er víðast hvar stöðnun og mun meira atvinnuleysi en hér. Það er auðvitað hægt að ná efnahagslegum stöðugleika með atvinnuleysi ef það er eina markmiðið. Þegar ég skoða sveiflur evrunnar er langt frá því að hún teljist stöðug, til að mynda á móti bandaríkjadollara sem er okkar helsti viðskiptagjaldmiðill. Þegar við berum saman matarkörfurnar hljótum við að taka laun með í reikninginn. Það getur varla talist óeðlilegt að matarkarfan sé dýr þar sem laun eru há og þau eru óvíða hærri en hér. Í allri þessari umræðu um lága vexti sakna ég umræðu um sparifjáreigendur, þar með talið lífeyrissjóðina. Hafa þeir ekki annars þurft að greiða með innlánum í Evrópu síðastliðin ár? Eru neikvæðir raunvextir eftirsóknarverðir? Hvaða áhrif hafa lágir vextir annars á húsnæðisverð og þar með afborganir? Af hverju lofa ESB-sinnar stöðugleika og fyrirsjáanleika við upptöku evru? Er minni fyrirsjáanleiki í Svíþjóð en í evrulöndunum Spáni og Grikklandi? Og hvað er þá með Sviss? ESB-sinnar mættu gjarnan reyna að flytja þennan málflutning út til ESB-landa sem hafa hafnað evrunni. Vita þeir ekki hvað hún er mikil snilld?