Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Hér á undan mér var hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir að tala og ég ætla að lýsa því hér yfir í ræðustól að ég er hjartanlega sammála þingmanninum, bara ekki um það sem hún var að nefna hér rétt áðan. Hv. þingmaður hefur nefnilega verið í fararbroddi þeirra Sjálfstæðismanna sem vilja aflétta leyndinni af Lindarhvolsskýrslunni og þar erum við hv. þingmaður svo sannarlega sammála. Ég var nefnilega að fylgjast með orðaskiptum hér í þinginu í gær á milli hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar í fyrirspurnatíma. Þar nefnir hæstv. forsætisráðherra að það þurfi að eiga sér stað einhvers konar pólitískt samtal um að aflétta leyndinni af Lindarhvolsgreinargerðinni sem liggur hér í þinginu. Þetta samtal er búið að standa yfir nánast linnulaust frá síðasta kjörtímabili. Undanfarna mánuði hefur þetta samtal meira að segja verið talsvert mikið, bæði á vettvangi forsætisnefndar, hér í þingsal og núna á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þannig að það skortir ekkert á samtalið. Það skortir hins vegar talsvert á hinn pólitíska vilja. Einnig kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að æskilegast væri að forsætisnefnd gæti bara náð einfaldlega einhvers konar sameiginlegri niðurstöðu, þar með talið forseti þingsins, um meðferð þessa gagns. Nú er það þannig að það sitja níu í forsætisnefnd ef við teljum með tvo áheyrnarfulltrúa. Átta vilja birta greinargerðina. Forseti þingsins stendur hins vegar einn gegn því. Hér eru afskaplega lítt dulin skilaboð frá hæstv. forsætisráðherra til forseta þingsins um að hann ætti nú kannski að eiga betra og gagnvirkara samtal við alla nefndina um það að niðurstaðan yrði sú að birta greinargerðina. Það vantar ekki samtalið, það vantar bara viljann. Ég árétta það hér enn eina ferðina að það er vel hægt að líta til þess fordæmis í sambærilegum aðstæðum þegar listinn yfir (Forseti hringir.) kaupendur í Íslandsbankasölunni var birtur. Þrátt fyrir andstöðu Bankasýslunnar og þrátt fyrir lögfræðiálit um að það ætti ekki að birta út af bankaleynd var komist að þeirri niðurstöðu að almannahagsmunir af birtingu (Forseti hringir.) væru þyngri á metunum heldur en leyndin og það sama á við í þessu máli.