Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[14:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að við vonumst til þess að Kínverjar virki þessa vonarglætu sem er núna til staðar í tengslum við þessa heimsókn. Í öðru lagi sjáum við að ekki bara NATO og Evrópusambandið eru að dýpka sína samvinnu á sviði varnarmála, heldur er Noregur sem EES-ríki líka að fara í samtal við Evrópusambandið með því að fara inn í varnarmálin og vera stór partur af nýjum skotfærasamningi aðildarríkjanna.

Mig langar að spyrja að tvennu. Niðurfelling tolla á vörur frá Úkraínu fellur úr gildi að öllu óbreyttu núna í maí. Mun ráðherra beita sér fyrir því að þessi lagabreyting sem við gerðum til þess að styðja Úkraínu verði framlengd? Ég vona innilega að ríkisstjórnin sjái til þess að sá tollasamningur eða niðurfelling tolla verði framlengd, því stríðið er ekki búið og Úkraína þarf á öllum stuðningi að halda. Ég vona að ekki verði þrýstingur á að draga þetta til baka.

Mig langar síðan að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hún látið fara fram sjálfstætt mat á því að það verði hér viðvarandi hersveitir á Íslandi? (Forseti hringir.) Hefur utanríkisráðuneytið farið í það að meta sjálft hvort það væri akkur í því að hafa hér viðvarandi hersveitir, hvort sem við erum að tala um 200, 300 eða 500 manns?