Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[14:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu og get deilt mörgu af því sem þar kom fram. Ég ætla að koma inn á hluti sem ég mun að einhverju leyti fjalla um í ræðunni minni en fannst áhugaverðir hjá henni í ljósi þessarar stöðu sem við erum í í heiminum og ekki síst í Evrópu. Hún talar um að það þurfi að gæta vel að stöðu Íslands í heiminum og nefnir þennan fullveldisvanda sem blasir auðvitað við öllum á hvikulum tímum. Í þjóðaröryggisstefnunni eru tiltekin ný atriði og nýjar ógnir. Það er sífellt flóknara, ég tala nú ekki um fyrir smáríki, að verja fullveldi sitt nú og hvað þá til framtíðar. Því hefur stundum verið haldið fram að frekara fjölþjóðlegt samstarf skerði fullveldið. Ég held að miklu nær sé að fullyrða að leiðin fram á við og til að viðhalda og styrkja fullveldið sé meira alþjóðlegt samstarf, ekki ólíkt hjónabandinu, þar sem þú átt að láta af ýmissi háttsemi en færð betra líf í staðinn. (HKF: Ekki alltaf.)

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að skýrslan er ágæt fyrir sinn hatt en þetta er ekki stefna stjórnvalda og það birtist engin stefna í utanríkismálum, hvorki í ræðunni né skýrslunni, hvort ekki hafi komið til tals að ráðast í víðtækt hagsmunamat á stöðu okkar meðal þjóða, einnig á varnar- og öryggismálum, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á? Ég bendi á að við höfum látið fara fram slíkt hagsmunamat, m.a. varðandi EES-samninginn og peningastefnu til framtíðar. Kemur ekki til greina að gera slíkt stórt hagsmunamat varðandi stöðu okkar í umheiminum?