Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:01]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Kemur kannski ekkert á óvart að Evrópusambandið var nefnt þar alla vega einu sinni eða tvisvar. Mig langaði einmitt í fyrra andsvari mínu að ræða aðeins við hv. þingmann um Evrópusamstarf og þá er ég að hugsa meira um það starf sem við erum þegar í, EES-samstarfið og annað samstarf. Ég nefndi næstum því áðan samstarf Evrópusambandsríkjanna á sviði almannavarna, bara sem dæmi. Varðandi EES, finnst hv. þingmanni við vera að leggja nógu mikla vinnu í hagsmunagæslu okkar innan EES-samstarfsins? Vandamálið sem maður sér er að þó svo við eigum orðið fleiri fulltrúa í Brussel þá erum við enn að lenda í því að ákveðin málefni sem skipta okkur miklu máli fá ekki nægilega mikla athygli innan Evrópuþingsins, Evrópuráðsins, allra mismunandi Evrópustofnana og stundum kannski svolítið seint sem við erum að koma að. Dæmi um þetta er það sem við höfum rætt á undanförnum vikum um flug og Ísland. Hvað getum við gert til að efla það samstarf sem við þegar erum í, áður en við tökum kannski skrefið að fara í Evrópusambandið?