Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:21]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Hafandi fæðst í okkar gamla herraríki Danmörku fyrir örfáum áratugum síðan, búið síðan með þýsku þjóðinni um tíma, þeirri skosku og reyndar bresku, í Englandi og Skotlandi, hinni bandarísku og ferðast víða, þá hef ég kannski hrist af mér hina genatísku vanmetakennd íslenska búandasveinsins úr Borgarfirði. Jónas Kristjánsson sálugi, fyrrum ritstjóri Dagblaðsins, taldi að þrælslund mætti glögglega að greina í því hvernig Íslendingar hefðu þolað framkomu og framgöngu annarra þjóða gagnvart sér, Norðmanna fyrst og kannski Dana lengst af þangað til við hristum þá af okkur og stofnuðum okkar eigið lýðveldi.

Vinaþjóðin Bretar kom okkur dálítið á óvart árið 2008 þegar þeir skelltu á okkur hryðjuverkalögum. Ekki höfum við nú látið þá gjalda þess mikið í okkar samskiptum síðan. Og við gengum inn í Evrópska efnahagssvæðið full af trú, von og kærleika fyrir bráðum 30 árum síðan. Ég var einn af þeim sem barðist mjög fyrir því að það gengi eftir. Ég veðjaði á smáflokk, A-flokkinn, Alþýðuflokkinn, sem var með vígorðið: Ísland í A-flokk. Hann vildi einn íslenskra íslenskra flokka inn í það ágæta efnahagssvæði og við löguðum okkur að þeim lögum og reglum sem þar giltu og höfum síðan mátt horfast í augu við sívaxandi fjölda krafa og innleiðinga; 650 innleiðingar á hverju ári sem við þurfum að fara með í gegnum kerfin okkar og gera alveg eins og þeir búrókratar í Brussel vilja í stóru og smáu.

Flestir telja það alveg hvellskýrt og blasa við að það hafi verið gæfuskref á sínum tíma. Þá voru það niðurfellingarnar á tollum á okkar helstu útflutningsvöru, fiskinum, sem voru helsta ástæðan sem tilgreind var. Búhnykkurinn fólst einkum og sér í lagi í því og eins því að geta farið og menntað sig án mikils skólagjaldakostnaðar eða búið hvar sem maður vildi á Evrópusvæðinu. Ýmsir kostir. Mér finnst alltaf mikilvægt þegar gengið er til samninga eða samstarfs, að maður ýti reglubundið á rífresstakkann og átti sig á því hvar maður er staddur í sambandinu. Hvernig gengur hjónaband okkar og ungfrú Evrópu hinnar glæstu? Maður hefði stundum ímyndað sér að við gætum og mættum stíga fastar til jarðar þegar okkur liggur mikið við.

Hér erum við við endimörk hins byggilega heims. Núna er efst á dagskrá ríkisstjórnar Íslands, sem og annarra, þetta sem lýtur að kolefnissporinu og að lágmarka það, hversu smátt sem það er í stóra samhenginu. Og nú skulum við gjalda tvöfalt eða þrefalt gjald á við aðrar fljúgandi þjóðir í Evrópu, bara sökum fjarlægðar okkar, upphæðir sem bætast á hvern ódýran farmiða, t.d. til Mílanó, 15.000 kr. á farmiða til viðbótar við 15.000 eða 20.000 kr., fargjaldið sjálft. Um þetta er búið að þinga oftar en nokkurt annað mál frá því að við gengum í hjónabandið fyrir 30 árum; sendiráðið í Brussel, sennilega um 80 fundir, samgönguráðherra Íslands, sennilega um 16 fundir. Við vitum að aðrir ráðherrar hafa tekið þátt í þessu og árangurinn er sum sé 0. Svarið er: Nei. Við munum ekki taka tillit til sérstöðu Íslands í þessu né yfir höfuð öðru. Við viljum bara að þið hlýðið okkur.

Þetta er ekki í mínum huga ávísun á farsæld eða friðsæld eða gagnkvæma gleði og ánægju. Þetta eru þungar álögur á okkar þegna sem eiga ekki margra kosta völ annarra en að fljúga eða ef þeir þurfa að komast til útlanda í einkaerindum eða viðskiptaerindum eða hvað það nú er. Sjáum hvað setur.

En ég vil líka segja að það er mikilvægt að okkar sjálfstraust sé jafn ríkt og við eigum skilið og eigum innstæðu fyrir og við þurfum ekki að beygja okkur svo glatt eða eins oft sem raun ber vitni. Horfum þá til hinna stóru sambandsríkjanna handan þeirra evrópsku, sem eru Bandaríki Norður-Ameríku. Þar höfum við verið í að flestra mati nokkuð farsælu sambandi, ólíkt flestum eða fjölmörgum löndum í Evrópu og sannarlega ólíkt Bandaríkjunum þá er ára okkar ansi hrein svona í samanburðinum þegar kemur að því að ráðast inn í aðrar þjóðir og hirða af þeim auðlindir eða auðæfi, hvað sem það er. Kannski er karmað okkar í því samhengi að einhverju leyti skárra og hreinna og við verðskulduðum kannski annars konar pakka en þeir sem hafa gengið þannig gegn öðrum þjóðum, ráðist inn og tekið líf og tekið verðmæti, tekið svarta gullið í miklum mæli. Kannski er það ein stærsta áskorun okkar Íslendinga að standa vörð um græna gullið, nýja gullið, standa vörð um landgæðin og allt það sem sóst er eftir hér á Íslandi og margir renna hýru auga til. Ég segi: Við skulum vera mjög á varðbergi gagnvart þeim sem kalla sig vini og vilja vera bestu vinir aðal ef þeir sýna okkur ekki nákvæmlega sömu vinsemd og við sýnum þeim og höfum gert, því að vinasamband þarf að vera gagnkvæmt til að rísa undir því sæmdarheiti.

Þess vegna velti ég fyrir mér; þegar Bandaríkjamenn skildu við okkur hér á sínum tíma, þá skömmu síðar, eða reyndar um svipað leyti, höfðu komið fram upplýsingar úr varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna um að ýmsar af bandamannaþjóðum Bandaríkjanna hefðu geymt kjarnavopn á stríðstímum og allar hefðu þær vitað um það og það hafi verið gert með samþykki stjórnanna, nema á Íslandi. Og svo kemur í ljós að við erum með fullt af eiturefnum sem skilin voru eftir af Bandaríkjamönnum og þeir neita að horfast í augu við, hvað þá bæta okkur það. Við skulum þrífa þann skít sjálfir.

Nú förum við reglubundið til Bandaríkjanna, flest okkar, og nú erum við í utanríkismálanefnd á leið til Bandaríkjanna. Þegar þeirra herrar koma til Íslands þá hliðrum við öllu til og frá til að mega nú örugglega hitta þá sem óska eftir fundum með okkur. En með löngum fyrirvara er óskað eftir fundum með utanríkismálanefnd Bandaríkjanna. — Sorrí, strákar mínir og stelpur, við höfum bara öðrum hnöppum að hneppa. Gangi ykkur bara vel. Verið þið blessaðir.

Til að komast þarna inn er ég nýbúinn að fylla út umsókn sem þar sem ég er spurður hvort ég hafi tekið þátt í mansali, morðum, eiturlyfjasmygli og ýmsu sem ég held að komi mjög framandlega fyrir augu okkar Íslendinga. Ég held að við eigum í þessari ferð og í komandi ferðum okkar góða utanríkisráðherra, sem ég vil nú ljúka sérstöku lofsorði á fyrir frammistöðu sína í starfi frá því að hún tók við embætti, að tala kurteislega íslensku þegar okkur er misboðið. Mér er búið að vera ansi oft misboðið af þeirri þjóð, sem ég var nú sjálfur búsettur með í nokkur ár, að kjósi ég að koma þangað er það háð allt annars konar afarkostum en við bjóðum öðrum upp á sem hingað koma. Og kjósi maður að koma þarna og halda litla tónleika er það margra mánaða rándýr prósess. Kjósi maður að koma þarna og lenda um miðja nótt, eins og oft gerist í Hong Kong-flugum eða Kína-flugum, þá skal maður bíða í þúsund manna biðsal í nokkra klukkutíma, jafnvel þrjá, fjóra, fimm, ef ég dæmi um, meðan vinaþjóðir Bandaríkjanna fara í gegnum Global Entry.

Ég er búinn að tala um þetta árum saman við ýmsa utanríkisráðherra fyrir daufum eyrum þangað til hæstv. utanríkisráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir kom því máli í farveg. Það er nýkomið í farveg núna í sendiráðinu í Washington að við flokkumst með vinaþjóðum Bandaríkjanna og þótt fyrr hefði verið. Þetta er bara spurning um sjálfsagða kurteisi og gagnkvæman vinskap. Ef það á að vera gagnkvæmur vinskapur þá skulu þeir gjöra oss sem við gerum þeim. Það er eina formúlan sem gengur í samskiptum. Ég verð líka að segja að við eigum að heimta að þeir hirði upp eftir sig það eitur sem hér var skilið eftir í jörðu og leita mun í vatnsból framtíðarkynslóða. Ég mun líka óska eftir því að við séum í annars konar samskiptum um að geta yfir höfuð ferðast til og frá Bandaríkjunum, alveg eins og þeir ganga hér í stríðum straumum inn í Ísland sem sjálfsagðir og velkomnir gestir. Það að þeir séu um 380 milljónir og við 380.000 gildir bara einu. Það að þeir séu herveldi sem eyða stórum hluta þjóðartekna sinna í að reka heri og taka sér sjálfsvald í að verða einhvers konar lögregla heimsins varðar okkur ekkert um. Við erum þeim jafn dýrmætir og þeir eru okkur. Og hafi einhver haldið að þeir væru hér varnarliðið okkar um áratugaskeið á Miðnesheiðinni skulum við bara rifja það upp að þeir voru hér þegar þeim hentaði það, (Gripið fram í.) fyrst og fremst.

Og það að hér hafi komið til fyrstu götubardaga á Íslandi árið 1949, beint fyrir framan þetta hús, segir okkur hversu mjög margir tóku það nærri sér að bendla sig við hernaðarbandalag og margir gera það enn þann dag í dag. Ég er þeirrar trúar að við höfum stigið rétt skref á sínum tíma. En við ætlum ekki að fara að temja okkur amerískt mentalítet, hernaðarmentalítet, hvorki í samskiptum okkar við aðrar þjóðir né í persónulegum samskiptum.

Ég segi: Mín skoðun á skýrslunni sem hæstv. ráðherra flutti er sú að hún sé prýðilega vel unnin og vönduð, vel farið yfir lykilmálin. Úkraínumálin eru að sjálfsögðu þar efst á blaði, fyrst á blaði. Ég tel að okkar vel kynnta gestrisni og kærleiksþel gagnvart náunganum hafi speglast mjög vel í þeim móttökum sem við höfum sýnt Úkraínufólki.

Ég er hins vegar hneykslaður á því að formaður Flokks fólksins skuli hafa þurft að sitja undir hrakyrðum og ásökunum um rasisma fyrir það eitt að hafa í umræðum um útlendingafrumvarp velt upp þeim möguleika að við tækjum á móti herþjáðum, eða við skulum segja stríðshrjáðu flóttafólki, en opnuðum ekki allar gáttir hér fyrir þeim sem glíma við efnahagsleg vandræði í samanburði við okkur, vegna þess að það eru sirka 3.500 milljónir einstaklinga í heiminum sem geta borið fátækt við, samt samanber okkur sjálf fyrir ekki svo mörgum áratugum eða öldum síðan.

Í það heila tel ég okkur vera að feta ljóssins stigu stigu í því sem flokkast undir utanríkismál, samskipti við aðrar þjóðir. Mér finnst rétt að við höldum til haga framgöngu Dana, Norðmanna, Breta, Bandaríkjamanna og annarra sem ætlast til að við sitjum og stöndum eins og þeim hentar, henda á okkur hryðjuverkalögum ef það hentar og láta okkur eyða þremur klukkutímum í að fylla út umsóknareyðublöð til að koma til að hitta utanríkismálanefnd Bandaríkjanna en fá svo ekki að hitta hana.

Höldum þessu bara kurteislega til haga og þegar mikið liggur við þá skulum við tala íslensku eins og okkur einum er lagið, óbangin við það að okkur verði refsað með einum eða öðrum hætti, hvorki vestan frá né austan.