Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Þegar horft er til mannfjölda í heiminum er Ísland einungis örþjóð sem að öllu jöfnu væri ekki horft til þegar kemur að alþjóðamálum. En þrátt fyrir smæð okkar hefur okkur tekist að ná árangri á sviðum eins og jafnrétti kynjanna og nýtingu endurnýjanlegrar orku sem tekið er eftir á alþjóðlegum vettvangi. Það er einnig þannig í alþjóðlegu samstarfi að hlutverk eins og það t.d. að vera í forystu Evrópuráðsins færist jafnt á milli stórvelda og smáríkja svo aldrei er hægt að spá fyrir um það hver staðan er í alþjóðamálum þegar slík forysta fellur Íslandi í hönd. En óháð því hvort örlögin ráða því að forystuhlutverk falli Íslandi í skaut samkvæmt fyrir fram ákveðnu skipulagi á miklum umbrotatímum eða ekki hefur Ísland ávallt tækifæri til þess að skipa sér í forystuhlutverk þegar kemur að málefnum sem eru okkur mikilvæg. Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir að vera lítil þjóð þá getum við sýnt að hugur okkar og hjörtu eru stór. Sem friðsamrar þjóðar fellur það ekki í okkar skaut að senda skriðdreka og orrustuþotur til Úkraínu heldur stendur hugur okkur nærri þeim einstaklingum sem heyja stríð til verndar lýðræði í Evrópu. Sem þjóð þekkjum við á eigin skinni þá harðneskju sem veturinn ber í skauti sér og þá töfra sem hin íslenska ull hefur í aldanna rás ljáð þeim sem úti í kuldanum þurfa að standa.

Virðulegi forseti. Það er tekið eftir stuðningi lítillar þjóðar þrátt fyrir að hann felist ekki í hergögnum og hermönnum. Ísland hefur einnig sýnt það á undanförnum árum að þegar kemur að baráttunni fyrir mannréttindum og jafnrétti í heiminum þá erum við í forystu. Rödd lítillar þjóðar leiddi til einnar fyrstu opinberu gagnrýninnar á alþjóðavettvangi á mannréttindabrot stjórnar Rodrigos Dutertes á Filippseyjum. Sameiginlegt framtak Íslands og Þýskalands í málefnum kvenna í Íran hefur einnig vakið verðskuldaða athygli á alþjóðavettvangi. Baráttan fyrir jafnrétti og mannréttindum krefst þess nefnilega ekki að við séum sérlega fjölmenn þjóð heldur krefst hún þess að við höfum þor og dug til að segja það sem aðrir þora ekki að segja, vera rödd þeirra sem ekki hafa tækifæri til að láta í sér heyra á alþjóðlegum vettvangi.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur sýnt að hún lætur sig þessi mál varða og hvet ég hana eindregið til að nýta stöðu sína og rödd enn meira í þessa þágu. Þá ber einnig að fagna þeirri forystu sem Ísland hefur þegar sýnt í því að hefja skráningu stríðsglæpa Rússa í Úkraínu. Er það von mín að það sé einungis upphafið að forystu Íslands í því að tryggja að brot þjóða gegn friði, gegn mannkyninu og gegn umhverfinu fái ekki að viðgangast án þess að þær þurfi að bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Eftirköst heimsfaraldurs, stríðið í Úkraínu, pólarísering í alþjóðamálum, heimskreppa í efnahagsmálum og stóraukin áhrif loftslagsbreytinga hafa skapað bakslag í baráttunni fyrir bættum heimi. Árangur sem hefur náðst með áratugalangri baráttu fyrir aukinni menntun og gegn sárafátækt hefur tekið stórt stökk aftur á bak á aðeins örfáum árum. Hin metnaðarfullu heimsmarkmið, sem ná átti fyrir árið 2030, eru nú einungis fjarlæg draumsýn, falleg en óraunsæ. Ljóst er að nýrra aðferða er þörf til að tækla þær fjölvíðu krísur sem við stöndum frammi fyrir. Nauðsynlegt er að hugsa út fyrir boxið og finna nýjar lausnir þar sem ríkisstjórnir, frjáls félagasamtök, fjárfestar, góðgerðarstofnanir, fyrirtæki og almenningur vinna saman að því að tækla þessar stærstu áskoranir sem mannkynið hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir. Þar hefur Ísland einnig tækifæri til þess að vera í forystu, leiða þessa aðila saman og innleiða nýja hugsun á þessum vettvangi. Það að reyna að leysa vandamál nútímans með aðferðum og verkfærum fortíðarinnar er eins og að mæta með hest í Formúlu 1 kappakstur.

Gott dæmi um þetta gæti verið að horfa til þess árangurs sem náðst hefur með héraðsnálgun Íslands í tvíhliða samstarfi. Í stað þess að láta það standa eitt og sér er um að gera að virkja frjáls félagasamtök inn í þá nálgun auk þess sem við tryggjum að fjölþjóðlegt samstarf í þessum löndum sé virkjað inn í héruðin. Þarna liggur t.d. vel við að virkja nána samstarfsaðila Íslands eins og Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, kvennastofnun Sameinuðu þjóðanna og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, World Food Program, UN Women og UNICEF. Einnig þarf að virkja samstarfsverkefni þessara aðila við fyrirtæki og góðgerðarsjóði, eins og t.d. Giga-verkefnið sem stefnir að því að tengja alla skóla heimsins við internetið. Já, það er þegar við vinnum saman en ekki hvert í sínu horni sem við getum náð enn meiri árangri með þeim litlu peningum sem við höfum úr að moða.

Frú forseti. Við þurfum einnig að horfa til þess hvernig hægt er að nýta þekkingu og reynslu Íslands á sviði björgunarstarfa, þekkingu og reynslu sem er á heimsmælikvarða þegar kemur að mannúðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara. Við sáum t.d., í kjölfar nýlegra jarðskjálfta í Tyrklandi, að íslenskir sérfræðingar voru fengnir til þess að samhæfa aðgerðir allra alþjóðlegra rústabjörgunarsveita í landinu. Þarna getum við bætt í og aukið þátttöku Íslendinga og Íslands á þessu sviði, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og almannavarnasamstarfs Evrópu. Í því samhengi langar mig einnig að nefna sérstaka þingsályktunartillögu sem hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, ég, Þórarinn Ingi Pétursson og Steinunn Þóra Árnadóttir mæltum fyrir fyrir nokkrum vikum og liggur nú í utanríkismálanefnd. Þar er lagt til að utanríkisráðuneytið kanni möguleika á því að setja á fót alþjóðlegan björgunarskóla á Íslandi í tengslum við núverandi skóla sem starfræktir eru undir merkjum UNESCO og GRÓ.

Á næstu dögum munum við ræða fjármálaáætlun næstu fimm ára. Eins og þeir sem hafa fylgst með andsvörum mínum fyrr í dag hafa tekið eftir stend ég enn í þeirri von og trú að markmið okkar í þróunarsamvinnu leiði til þess að við hækkum smátt og smátt framlög okkar úr 0,35% af vergum þjóðartekjum upp í markmið Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, sem hefur sett markið á 0,7% af vergum þjóðartekjum. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem stríðið í Úkraínu er nú þegar farið að éta hluta þess framlags sem við höfum verið að leggja til til fátækari ríkja í Afríku.

Mig langar einnig að hvetja hæstv. utanríkisráðherra til þess að við setjum enn meiri kraft í að tryggja hagsmuni Íslands innan EES-samstarfsins. Við höfum því miður séð nýleg dæmi þess að hagsmunagæsla okkar hefur ekki verið nægilega sterk. Við þurfum að læra af því. Þar á ég við áhrif ETS-loftslagskerfisins á flug til og frá Íslandi. Þegar kemur að því að tryggja þessa hagsmunagæslu getum við einnig gert betur í því að efla samstarfið milli utanríkisráðuneytisins og EES/EFTA-þingmannanefndarinnar svo að hún geti stutt við þessa hagsmunagæslu í störfum sínum innan EFTA og EES. Gott dæmi um þetta er að á næstu mánuðum mun Evrópusambandið fjalla um og væntanlega samþykkja nýtt samstarf sem á að tryggja betri samhæfingu og samstarf því að næsta krísa á við heimsfaraldur eða annað getur haft áhrif á innri markaðinn. Þetta er samstarf sem gengur undir nafninu: Internal Market Emergency Resilience Act en Evrópusambandið hefur valið að kalla Imera. Þar höfum við í EES/EFTA-nefndinni t.d. þegar unnið að því að þrýsta á aðkomu EES-landanna í samráðsráði Imera.

Frú forseti. Mig langar að nýta tækifærið hér í ræðu minni til þess að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög gott samstarf við utanríkismálanefnd þingsins. Það eru fáir ráðherrar sem hafa verið jafnduglegir að tryggja upplýsingaflæði milli nefndar annars vegar, utanríkismálanefndar, og ráðuneytisins hins vegar. Þetta er eitthvað sem ég held að aðrir ráðherrar gætu lært af, gætu farið að nýta sér til þess að tryggja betra þverpólitískt samstarf innan þingsins og lyfta umræðunni upp úr skotgröfunum.

Frú forseti. Að lokum: Það er á neyðarstundu sem það kemur fram hverjir eru raunverulegir leiðtogar. Við Íslendingar eigum því að sýna það og sanna í verki að þrátt fyrir smæð séum við ávallt tilbúin að berjast fyrir og vera í forystu fyrir því sem við stöndum fyrir sem samfélag.