Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:18]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir sitt seinna andsvar. Ég er alveg sammála því að við eigum ekki að bæta við sviðum. Ég held að hægt sé að taka þessa hugmynd um björgunarskóla og tengja hana við það starf sem við erum þegar að sinna á sviði mannúðarmála og flétta inn í það. Þeir sem við getum sent út geta verið þeir sem eru í því að þjálfa upp fólk erlendis. Við erum að gera þetta. Það eru Íslendingar að þjálfa upp fólk víða um heim, stundum í gegnum Evrópusambandið, stundum í gegnum erlend félagasamtök. Ég held að það sé tækifæri til að kanna hvort hægt sé að búa til einhvern ramma í kringum það. Í því sambandi langar mig að nefna að þessi þingsályktunartillaga er eins varlega orðuð og hægt er; að kanna möguleika á því að stofna alþjóðlegan björgunarskóla. Það er varla hægt að vera með opnari skilgreiningu í þingsályktunartillögu, held ég.

Hæstv. ráðherra nefndi að stundum þarf að taka ákvarðanir hratt. Það var akkúrat forveri hæstv. ráðherra sem þann 12. mars 2010 kom upp í höfuðstöðvar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og ég kynnti fyrir honum af hverju Ísland ætti að fara til Haítí og hvernig við gætum hjálpað þar. Hæstv. ráðherra tók þá ákvörðun mjög hratt og auðveldlega. Það leiddi til þess að íslenska sveitin var fyrst á vettvang og vann mjög þarft starf þar og var leiðandi í að aðstoða Sameinuðu þjóðirnar og aðra viðbragðsaðila á vettvangi, af því að þau voru fyrst. Þannig að ákvarðanir sem eru teknar hratt og örugglega, þær skipta máli.