Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hafa orðið mjög áþreifanleg stefnubreyting hjá Samfylkingunni (Gripið fram í.) hvað varðar aðild að NATO, svona í orðalagi hv. þm. Loga Einarssonar hér. Ég taldi mig nú svara því frekar skýrt í fyrra andsvari hver stefna mín og stefna minnar hreyfingar er þegar kemur að aðildinni að NATO. Við erum enn þeirrar skoðunar að við teljum að við eigum að segja okkur úr NATO.

Hvað varðar þjóðaröryggisstefnuna þá samþykktum við breytingar á henni, það eru allt saman breytingar sem við teljum vera til bóta. Það eru atriði í þjóðaröryggisstefnunni, þau varða veru okkar í NATO og þau varða varnarsamninginn sem við höfum talað gegn. Ég tel að þar þurfi að beita langtímahugsun og breyta langtímahugsun alþjóðastjórnmálanna. Það er í mínum huga ekki einhver falleg friðarhugsjón. Í mínum huga er það grjóthörð alþjóðapólitík sem snýst um raunverulegar lausnir til langframa um friðsamlegt samfélag.