Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[17:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Það veldur mér alveg ákveðnum áhyggjum, og þess vegna vonast ég til þess að tillaga nokkurra Sjálfstæðismanna um að koma hér upp rannsóknasetri í öryggismálum nái fram, að við erum ekki með okkar sjálfstæða mat á því hvort við þurfum að hafa viðvarandi her hér eða efla varnarsamstarfið við Bandaríkin með skarpari hætti, hvernig við virkjum stjórnsýsluna, hvernig við virkjum ef eitthvað hendir okkur hér á norðurslóðum, hvernig við setjum allt kerfið af stað. Það er óljóst. Það veldur mér áhyggjum ef utanríkisráðherra telur þetta ekki skipta máli.

Það sem ég er að segja, og við getum heimfært það enn og aftur á ríkisstjórnarsáttmálann, er að það er verið að tipla á tánum í kringum hlutina. Utanríkisráðherra hefur gert það vel og reynt að gera það sem hægt er að gera í sínu „kapasiteti“. En það þarf að segja mér það tvisvar að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið algerlega andvígur því að móta hér varnarstefnu, að það sé bara hægt að lesa varnarstefnuna út úr fjárlögunum, út úr þjóðaröryggisstefnunni meðan allar aðrar þjóðir eru að taka varnarstefnu sína í gegn og meta varnir sínar sjálfar, ekki fá bara skilaboð að utan.

Það er hægt að ræða ýmislegt þessu tengt. Já, auðvitað munum við alltaf tala um Evrópusambandið en við í Viðreisn höfum áttað okkur á þessum veruleika sem er hér inni, að vera eiginlega með sex íhaldsflokka þegar kemur að utanríkismálum. Þess vegna höfum m.a. lagt fram þingsályktunartillögu um að vega og meta þannig að kostirnir liggi fyrir, það liggi fyrir eitthvert umræðuplagg um það hvort við eigum að spýta í þegar kemur að tvíhliða samningum eða hverjir kostirnir eru við það fyrir litla þjóð að vera í öflugu sterku fjölþjóðasamstarfi. (Forseti hringir.) Hættulegra er það nú ekki. En þessi tillaga fæst ekki einu sinni rædd.