Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

NATO-þingið 2022.

648. mál
[18:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er kannski bara eins og kjarnorkustefna NATO. NATO segir að á meðan kjarnavopn fyrirfinnist í heiminum þá ætli NATO að vera kjarnorkubandalag, þó að það stefni að heimi án kjarnavopna. Meðan Ísland er í NATO þá sé ég ekkert að því að taka þátt í þessu starfi þingmannadeildar NATO-þingsins. Þangað hef ég mætt og er ekkert að öskra Ísland úr NATO á öllum fundum, ég spara orkuna. En ég hef mætt þangað til að tala fyrir atriðum sem mér þykir oft vanta í þennan sal. Það eru oft og tíðum frekar einsleit sjónarmið sem komast inn í landsdeildir NATO-þingsins, en við erum nokkur sem á ólíkum forsendum nálgumst grundvöll umræðunnar á aðeins krítískari hátt. Einn kollegi minn þarna er t.d. að tala mjög fyrir femínískri utanríkisstefnu, eitthvað sem vantar svo sannarlega í þá karllægu orku sem oft er í kringum varnarmál. Sjálfur hef ég nýtt nánast hvert tækifæri til að tala fyrir því að NATO nálgist samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum með einhverjum uppbyggilegri hætti en að reyna að koma honum í lóg, vegna þess að þótt þau séu ekki sammála um verkfærið sem samningurinn er þá er hann til. Hann er gildur alþjóðasamningur og til að vinna að sameiginlegu verkefni um friðsælan kjarnavopnalausan heim þá ætti frekar að vinna með honum en á móti honum. Að því sögðu þá er kannski rétt að taka fram líka að flokkurinn minn, Píratar, hefur enga afstöðu til verunnar í NATO, (Forseti hringir.) af eða á, en við erum einmitt með þessa yfirlýstu stefnu að á meðan Ísland er aðili að NATO þá eigum við að nálgast veruna þar og vera rödd í þágu friðar og gegn t.d. hernaðaruppbyggingu, sérstaklega á norðurslóðum.