Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

ÖSE-þingið 2022.

688. mál
[18:46]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S):

Frú forseti. Ég ætla að stikla hér á stóru í skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Ég tek hér til máls sem nýkjörinn formaður Íslandsdeildarinnar. Á árinu 2022 gegndi hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins, formennsku í deildinni og ég þakka henni fyrir hennar góða starf. Sömuleiðis hefur vikið úr deildinni hv. þm. Ágúst Bjarni Garðarsson, úr þingflokki Framsóknarflokksins, og ég þakka honum fyrir hans ágæta starf og býð velkomna í deildina Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttir, hv. þingmann úr þingflokki Framsóknarflokksins.

Íslandsdeild hélt tvo fundi á árinu til að undirbúa þátttöku sína á fundum ÖSE-þingsins. Á vettvangi ÖSE-þingsins árið 2022 var innrás Rússlands í Úkraínu í brennidepli. Eins og við fæst fáum gleymt hófst árásarstríð Rússa þann 24. febrúar. Þann sama dag kom ÖSE-þingið saman til hefðbundins vetrarfundar. Að gefnu tilefni vék dagskrá fundarins fyrir neyðarumfjöllun um stöðuna í Úkraínu og var innrásin fordæmd sem skýlaust brot á alþjóðalögum. Lögð var áhersla á að innrásin bryti gegn ákvæðum stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og Helsinki-lokagerðarinnar sem liggur til grundvallar Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Helsinki-lokagerðin kveður á um að aðildarríkin virði landamæri hvert annars og vinni að friði, öryggi, lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. Á þessum fyrsta degi innrásarinnar hvöttu úkraínskir þingmenn á ÖSE-þinginu umheiminn til að styðja Úkraínu með rökum sem áttu eftir að verða leiðarstef í málflutningi þeirra á öllum fundum ársins. Í Úkraínu væru grunngildi Vesturlanda á borð við frjálslyndi, lýðræði og mannréttindi varin og varnarbarátta Úkraínumanna væri því fyrir öryggi allrar Evrópu. Stöðva yrði árásarstríð Rússa því að ef Úkraína félli væri þess ekki langt að bíða að Rússar héldu áfram og þrýstu á landamæri annarra Austur-Evrópuríkja.

Á ársfundi ÖSE-þingsins í Birmingham í júlí var stríðið í Úkraínu enn í brennidepli og var þingmönnum frá Rússlandi og Belarús meinuð þátttaka af hálfu breskra stjórnvalda sem voru gestgjafar fundarins. Á ársfundinum var samþykkt tillaga formanns úkraínsku landsdeildarinnar um að fela reglunefnd þingsins að vinna tillögu að breytingu á starfsreglum þess þannig að hægt yrði að víkja aðildarríki af ÖSE-þinginu fyrir gróf brot gegn ákvæðum Helsinki-lokagerðarinnar. Innrás Rússlands í Úkraínu var harðlega fordæmd í yfirlýsingu ársfundarins. Alls voru samþykktar tíu aukaályktanir, m.a. um áhrif árásarstríðs Rússa í Úkraínu á öryggi á ÖSE-svæðinu, um ógnanir og ofbeldi gegn konum í fjölmiðlum og stjórnmálum, um öryggi stríðsfréttaritara, um græn umskipti, um siðareglur fyrir þingmenn á ÖSE-þinginu og málefni norðurslóða.

Á vetrarfundi ÖSE-þingsins í Varsjá var stríðið í Úkraínu enn helsta dagskrármálið. Þingmönnum frá Rússlandi og Belarús var meinuð þátttaka af pólsku gestgjöfunum. Vladímír Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundabúnað frá Kænugarði. Hann beindi sjónum sínum að ÖSE og ÖSE-þinginu og þeirri staðreynd að Rússland væri enn formlegur aðili að þeim stofnunum. Zelenskí, forseti Úkraínu, undirstrikaði að árásin gegn Úkraínu væri jafnframt stríð gegn ÖSE og að við slíkar aðstæður þyrfti ÖSE að sýna sterk viðbrögð ef stofnunin ætlaði ekki að veikja sig og trúverðugleika sinn. ÖSE gæti lagt sitt af mörkum til sigurs á Rússum með því að vísa þeim úr ÖSE og verða með því raunveruleg stofnun fyrir öryggi og friði.

Á vetrarfundinum lagði reglunefnd ÖSE-þingsins fram tillögu að breytingu á starfsreglum þingsins þess efnis að víkja mætti aðildarríki sem færi með hernaði gegn öðru aðildarríki af þinginu. Ekki náðist samstaða um tillöguna og var afgreiðslu á breytingum á starfsreglum ÖSE-þingsins frestað. Reglunefnd var falið að vinna tillögur sínar áfram og leggja fyrir næsta fund en sá fundur fer fram nú síðar í mánuðinum.

Bryndís Haraldsdóttir og Helga Vala Helgadóttir sinntu kosningaeftirliti á vegum ÖSE-þingsins í Serbíu í apríl en Bryndís Haraldsdóttir sótti einnig samráðsfund formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltslanda á ÖSE-þinginu í Tallinn í maí. Þá gegndi Bryndís Haraldsdóttir starfi sérlegs fulltrúa ÖSE-þingsins um málefni norðurslóða á árinu. Á ársfundi ÖSE-þingsins lagði hún fram skýrslu og drög að aukaályktun sem var samþykkt. Í ályktuninni var fjallað um aukið mikilvægi norðurslóða, bæði hernaðarlega og efnahagslega, og voru aðildarríki ÖSE hvött til að beina sjónum sínum í auknum mæli að svæðinu. Bent var á alvarleg áhrif loftslagsbreytinga á samfélög á norðurslóðum. Voru aðildarríki hvött til að vinna saman og af ábyrgð til að tryggja langtímaáætlanir til að takast á við loftslagsbreytingar.

Frú forseti. Ég hef nú rakið í stuttu máli starfsemi Íslandsdeildar ÖSE-þingsins á síðasta ári en vísa að öðru leyti til ársskýrslunnar í heild sinni sem er aðgengileg á vef Alþingis.