Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

norrænt samstarf 2022.

832. mál
[19:02]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla hér að stikla á stóru í skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem liggur fyrir og minna á að árið 2022 voru 70 ár liðin frá stofnun Norðurlandaráðs og 60 ár frá því að Helsingfors-samningurinn, sem er grundvallarsáttmáli norræns samstarfs, var undirritaður. Á þessu ári hófst einmitt umræða um það hvort fýsilegt væri að taka Helsingfors-samninginn til endurskoðunar og endurnýjunar, sem ég fer kannski yfir aðeins síðar í ræðu minni.

Í Norðurlandaráði eins og í öllu alþjóðasamstarfi — við höfum heyrt það ágætlega í þessum skýrslum í dag og í umræðu okkar um utanríkismál — litaði innrás Rússa í Úkraínu mjög okkar starf, eðlilega. Ég er mjög stolt af því, virðulegur forseti, sem við í Íslandsdeildinni stóðum fyrir, því Norðurlandaráð hefur átt í formlegu sambandi og samskiptum við Rússland í töluverðan tíma og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur einmitt gegnt því hlutverki fyrir Norðurlandaráð að halda utan um það samstarf, sem að sjálfsögðu hefur ekkert verið síðan innrásin hófst. Þó nýttum við þá fjármuni sem hafði verið varið í það samstarf. Komið var að Íslandi að taka á móti rússneskum þingmönnum á síðasta ári. Það hefur verið ákveðin hringekja meðal Norðurlandanna og þetta hefur verið gert til að byggja upp tengsl við Rússland og reyna að miðla því sem við höfum fram að færa í Norðurlandaráði. Norræna ráðherranefndin hefur líka verið með stofnanir og vinnu í Rússlandi sem hefur verið lokað og bæði Norðurlandaráð og norræna ráðherranefndin hafa fordæmt innrásina harðlega. Við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs ákváðum að nýta haustfundinn sem haldinn var hér síðastliðið haust á Íslandi til að varpa frekara ljósi á þessa innrás og velta því upp hvað við sem þjóðkjörnir þingmenn á þessum svæðum gætum gert til að aðstoða Úkraínu og hver staðan væri í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Við fengum að bjóða til þingsins úkraínskri þingkonu til sérstaks fundar í tengslum við það, Lesju Vasílenkó, og jafnframt Elínu-Alem Kent, sem er blaðamaður fréttaveitunnar Kyiv Independent, úkraínsk fréttakona. Við buðum fulltrúa úr rússnesku stjórnarandstöðunni, Jevgeníu Kara-Múrza, sem er í útlegð og starfar fyrir Free Russia Foundation en eiginmaður hennar er stjórnarandstæðingurinn Vladímír Kara-Múrza sem nú situr í fangelsi í heimalandi sínu fyrir pólitískar skoðanir sínar. Við vorum líka með fulltrúa frá Belarús, m.a. Franak Vjatsjorka, aðalráðgjafa Svjatlönu Tsíhanóskaju. Við áttum mjög góðan fund hér í Hörpu og ég verð að viðurkenna það, hafandi á síðasta ári verið í tveimur alþjóðastörfum í ÖSE-þinginu og hér, að maður hefur haft tækifæri til að hlusta á úkraínska þingmenn og mörg tækifæri til að fræðast um stöðuna og ekki síst sjónarmið þeirra sem búa þarna nær. Þá vísa ég kannski sérstaklega í Eystrasaltsríkin. Ég held að ég geti talað fyrir hönd okkar í landsdeildinni, að það var alveg ofboðslega mikil ánægja hjá þingmönnum Norðurlandaráðs með þennan fund. Það höfðu ekki allir þingmenn haft tækifæri til að heyra milliliðalaust hver staðan raunverulega væri.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hæstv. utanríkisráðherra, flutti þarna erindi og átti samtal við okkur í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, ásamt þessum góðu gestum og vinum okkar í Eystrasaltsþinginu, sem nauðsynlegt er að minnast á að voru auðvitað ákveðin forsenda fyrir því að þetta gæti allt saman farið fram þar sem þau aðstoðuðu okkur við tengsl til að ná til þessara gesta sem komu til okkar. Það var mjög vel tekið á móti gestum. Hæstv. forsætisráðherra kom og átti samtal við gesti fundarins í matarhléi, þeim var boðið upp á ferð til Bessastaða og ég held að við höfum sýnt allar okkar bestu hliðar og að fulltrúar Norðurlandaráðs hafi verið mjög sáttir við þetta.

Það er mjög hollt og gott að heyra það beint frá úkraínsku þingkonunni Lesju Vasílenkó að til þess að vinna stríðið þyrftu Úkraínumenn aðstoð; vopn og skotfæri, skotheld vesti og einkennisbúninga, brynvarin ökutæki, sjúkrabíla og heilbrigðisaðstoð af ýmsu tagi. Við fórum einmitt sérstaklega yfir það að nú væri Ísland ekki vopnaframleiðandi og væri herlaus þjóð, en það sem t.d. skipti máli væri fatnaður. Fljótlega í tengslum við þetta kom þetta fallega verkefni þar sem Íslendingar prjónuðu úr íslenskri ull og sendu út til Úkraínu. Því er svo margt sem skiptir máli og það var gott að heyra þetta beint frá þeim sem eru þarna á vígstöðvum.

Við sem búum í lýðræðisríkinu Íslandi getum oft kvartað yfir mörgu, sérstaklega í þessum sal, en það var mikilvægt þegar Elína-Alma Kent talaði um upplýsingastríð. Við horfum á hörmungarnar, skriðdreka- og loftárásir, hermenn með byssur og allt þetta, en þetta snýst líka um fjölþáttaógnir, hvernig verið er að beita áróðursstríði til að drepa niður menningu, hvernig verið er að telja fólki og börnum trú um að þau væru í raun ekki Úkraínumenn heldur Rússar — menning þeirra brotin niður með ýmsum hætti. Það skiptir miklu máli að standa vörð um þetta, um frjálsa fjölmiðla og mikilvægi þeirra. En á sama tíma eru erfiðleikar við að berjast gegn áróðursstríðinu því að Pútín og Rússland hafa misnotað fjölmiðla til að koma sínum áróðri í gegn.

Þetta var þessi ágæti fundur okkar sem við héldum í haust, þar sem við fengum góða gesti og ég var mjög stolt af því að geta leitt Íslandsdeildina á þessum fundi því að hann tókst mjög vel og eftir þessu var tekið. Ég kom inn á það í störfum þingsins að við héldum svo vorfund hjá okkur í síðustu viku þar sem við vorum einmitt að ræða um orkukreppuna sem nú ríkir í Evrópu sem er auðvitað afleiðing þessa stríðs. Ein þeirra skilaboða sem komu svo skýrt frá þessum góðu gestum okkar var hversu mikilvægt væri að Norðurlöndin eða Evrópa væri ekki háð gasi frá Rússlandi.

Þrátt fyrir að Úkraínustríðið hafi litað mjög alla umræðu innan Norðurlandaráðs þá er ýmislegt annað sem hefur verið á dagskránni. Árið 2019 setti norræna ráðherranefndin sér framtíðarsýn til ársins 2030 um að Norðurlöndin ættu að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Þessi orðanotkun, sem við notum mjög mikið, er stefnan sem allir hafa sameinast um. Þar eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Í tengslum við þessa stefnumörkun var kannski verið að setja umhverfis- og sjálfbærnimálin meira á dagskrá og þá fór aukið fjármagn í þau verkefni. Það hefur orðið til þess að töluvert hefur verið dregið úr fjármögnun menningar- og menntamála, sem hefur löngum verið mikilvægasti þátturinn í fjárhagsáætlun norræns samstarfs. Það er auðvitað alveg ljóst að framlög til Norðurlandaráðs á hvern íbúa hafa dregist saman og það verulega. Það er áhyggjuefni og ég held að við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs séum sammála um að norrænt samstarf sé mikilvægt og á sama tíma er mikilvægt að fjármagn sé sett í það.

Þar undir er menningarstarfsemi alveg ofboðslega mikilvæg og ég ætla að leyfa mér að koma inn á það að ég held að það sé svo mikilvægt fyrir okkur á Íslandi að við tölum þetta tungumál sem hinir í Skandinavíu skilja ekki. Þegar við förum inn í norrænt samstarf erum við að baksa við að tala okkar menntaskóladönsku og eru sumir mun færari í því en aðrir, eins og gengur og gerist, en sjálf gríp ég oft til enskunnar. Íslenska er auðvitað viðurkennt tungumál innan Norðurlandaráðs þannig að við fáum túlkun á fundum og annað, en þess á milli eru samt þessi samskipti við fólk og þau skipta máli. Nú verð ég að viðurkenna að ég fer í svolitla hringi með það hversu mikilvægt það er fyrir okkur að kunna dönsku eða eitthvert annað Norðurlandamál. Ég held að við í Íslandsdeildinni og við sem tölum fyrir norrænu samstarfi þurfum svolítið að velta þessu upp og þetta er ekkert nýtt. Það hefur verið talað um þetta í töluverðan tíma, en ég held að einhverju leyti að þetta kunni að vera heftandi fyrir okkur, ekki síst fyrir unga fólkið, því ég held að dönskukunnáttu hafi frekar hrakað en hitt. Svo að ég nefni nú dæmi úr mínu persónulega lífi þá er ég með eitt stykki Dana þessa vikuna, ungan dreng sem er skiptinemi og er að koma að heimsækja son minn sem fór til Danmerkur í fyrra. Þessi nemendaskipti unglinga milli Danmerkur og Íslands eru einmitt styrkt af norrænum sjóðum, en þeir tala ensku sín á milli. Kannski er það bara allt í lagi og kannski þurfum við bara að horfa til þess að þá eru báðir aðilar að mætast á jafnréttisgrunni með því að tala sitt annað tungumál, ekki annar að tala móðurmálið og hinn að baksa við að reyna það.

Ég ítreka það hversu mikilvægt norrænt samstarf er fyrir okkur Íslendinga. Norðurlandaráð og norrænt samstarf hefur verið með ákveðna dínamík sem hefur að mörgu leyti verið mjög góð. Hluti af Norðurlöndunum er í Evrópusambandinu og hluti ekki. Hluti hefur verið í NATO og hluti ekki, en ég fagna mjög væntanlegri inngöngu Finna í NATO og það hefur ákveðin áhrif á dínamíkina í samstarfinu. Ég kom aðeins inn á það í ræðu áðan varðandi utanríkisstefnuna okkar, að ég óttast mjög mikið að sú dínamík muni hafa veruleg áhrif til framtíðar á framtíð Norðurskautsráðsins. Vegna þess að við erum auðvitað norðurslóðaland, og ég vil gjarnan í minni pólitík leggja mikla áherslu á það, þá held ég að Norðurlandaráð sé góður vettvangur til að taka upp samtal um norðurslóðir og mikilvægt fyrir Norðurlöndin að sameinast í ákveðinni stefnu um hvernig eigi að nálgast það hápólitíska mál sem norðurslóðir eru. Það er bæði risastórt umhverfis- og loftslagsmál en líka ofboðslega stórt varnar- og öryggismál. Við höfum auðvitað rætt töluvert um varnar- og öryggismál hér og einhverjir hafa meira að segja nefnt það í umræðunni á síðustu vikum að Ísland þurfi að stofna her. Ég ætla ekki að taka undir þau sjónarmið, en kasta þó inn í umræðuna að ef á því væri þörf þá mætti miklu frekar velta fyrir sér sameiginlegum her Norðurlandanna. Nú eru Norðurlöndin öll með her. Ég velti því alveg fyrir mér hvernig umræðan um öryggis- og varnarmál muni þróast innan Norðurlandanna, því að þetta eru svo líkar einingar. Á sama tíma og ég tek undir mikilvægi þess að við séum með varnarsamning við Bandaríkin og séum í NATO, þá eiga Norðurlöndin miklu meira sameiginlegt í lagagrunni sínum, samfélagslegum grunni og velferðargrunni.

Ég held því að mikilvægt sé að öryggis- og varnarmál séu tekin upp á vettvangi Norðurlandaráðs. Það er mín prívatafstaða, nú er ég ekki að tala fyrir hönd landsdeildarinnar og ég efast ekki um að skoðanir geti verið skiptar um það. Þar af leiðandi finnst mér til að mynda full ástæða til þess, sem ég nefndi hér áðan, að þegar 70 ár eru liðin frá stofnun Norðurlandaráðs og 60 ár frá því að Helsingfors-samningurinn var undirritaður, að samningurinn verði tekinn upp þannig að víddin um öryggis- og varnarmál sé tekin inn. Þingmenn Norðurlandaráðs hafa haldið áfram að hvetja til aukins samstarfs Norðurlandanna um samfélagsöryggi sem er einn liður í þessu, sérstaklega ef við horfum á norðurslóðir og þá öryggishættu sem þar kann að skapast. Nú er ég ekki bara að tala um öryggismál tengd hernaði eða slíku heldur líka samfélagslegt öryggi, öryggi sjófarenda á þessu svæði. Það er alveg ljóst að ef til slyss kemur á norðurslóðum þá erum við með ofboðslega stórt og mikið svæði undir sem við berum ábyrgð á og getum kannski illa sinnt án þess að eiga gott og öruggt samstarf við vini okkar á Norðurlöndunum, og í þeim efnum horfi ég kannski sérstaklega til Noregs og Danmerkur með sína aðstöðu á Grænlandi.

Fram undan er spennandi ár hjá Norðurlandaráði og við munum án efa halda áfram að tala um þau mikilvægu mál sem þar eru undir. Ég hef auðvitað með engum hætti náð að fara yfir skýrsluna í heild sinni og ég fagna því að hér eru félagar mínir í Íslandsdeildinni staddir og veit að þeir munu taka til máls og kannski benda á þá þætti sem þeim finnst standa upp úr.

Ég ætla að minna á að Norðurlandaráð er í töluverðu alþjóðlegu samstarfi og stefna okkar í því var einmitt samþykkt núna á þinginu. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson sat í nefndinni sem fór yfir þá vinnu og ágætlega er farið yfir það í þessari skýrslu hversu víðtæk þátttaka okkar í Norðurlandaráði er í samstarfi við aðrar alþjóðastofnanir og önnur alþjóðaþingmannaráð. Ég held að það skipti máli, sem sést glöggt á því hversu mikill áhugi er á Norðurlandaráði. Það er mikill áhugi á að vinna með Norðurlöndunum og Norðurlandaráði víða og því ber að fagna. Það held ég að sýni svo sannarlega að þetta er klúbbur landa sem margir vilja bera sig saman við.