Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

norrænt samstarf 2022.

832. mál
[19:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er gott að koma hingað upp og fara að ræða um norrænt samstarf. Þeir tveir hv. þingmenn sem hafa talað hér áður, Bryndís Haraldsdóttir, sem er formaður Íslandsdeildarinnar okkar, og Oddný G. Harðardóttir, sem er varaformaður Íslandsdeildarinnar okkar, hafa nýtt tímann vel í að fara yfir helstu atriði þannig að ég er kannski með svolítið frítt spil hérna þegar ég kem upp sem þriðji ræðumaður. Þetta eru þá einhverjir punktar sem önnur hvor þeirra, ef ekki báðar, hv. þingmenn, hafa drepið á.

Það skiptir svo miklu máli þetta með tilgang samstarfsins, hvað við ætlum að fá út úr þessu. Ég er ekki ein þeirra sem finnst lausnin alltaf felast í meiri fjármunum en ég tek af heilum hug undir gagnrýni á að eðlileg og mikilvæg áherslubreyting í norrænu samstarfi í átt að loftslagsmálum og umhverfismálum sé á kostnað fjárfestingar okkar í menningu og norrænum gildum af því að það er raunverulega það sem við erum að tala um. Þarna liggja náttúrlega rætur þessa mikilvæga norræna samstarfs. Síðan er alveg hægt að hugsa þetta víðar og sjá fyrir okkur hvernig við erum akkúrat þar fyrirmynd margra þjóða sem eru að ströggla í þessa átt, að ná að spila eftir lýðræðisreglum, ekki bara setja þær einu sinni með blóði, svita og tárum jafnvel heldur að spila eftir því, ná að viðhalda velferðarkerfum, ná að vera friðsamar þjóðir, ná að búa íbúum sínum að mestu leyti gott og öruggt líf o.s.frv. Við höldum á þessu fjöreggi lýðræðisríkja, norræna módelinu, og við ættum auðvitað að vera að styrkja það en ekki að taka það sem ég myndi kalla óþarfa sénsa með því að vera að færa fókusinn í þessu norræna samstarfi. Ég held að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún sagði að loftslagsmálin og þessi mál væru alheimsmál á meðan við ein pössum upp á okkar gildi.

Ég kem inn í Norðurlandaráð sem þingmaður, fulltrúi Íslandsdeildarinnar, fyrir ári síðan. Þá vorum við að stíga upp úr Covid sem reyndist, rétt eins og hv. þingmenn hafa komið inn á, býsna mikill prófsteinn á margt af þessu og síðan er þá innrás Rússa í Úkraínu að eiga sér stað bókstaflega, þannig að auðvitað hefur þetta litað gríðarlega norrænt samstarf. Við höfum alla tíð haft náið samstarf við vini okkar í Eystrasaltsríkjunum, annars vegar þingmannanefndir þessara ríkjahópa, Norðurlandanna annars vegar og Eystrasaltsríkjanna þriggja hins vegar, og líka í gegnum þingmannanefnd Eystrasaltsins sem í eru þá að viðbættum þessum þremur þjóðum Þýskaland, Rússland, þar til Rússar urðu ekki húsum hæfir, og Pólland og svo einstaka fylki innan þessara landa. Þannig að við höfum verið í mjög þéttu sambandi og vaxandi sambandi, eins og hér er búið að fara yfir, við þessar þjóðir sem, fyrir utan auðvitað þá þjóð sem ráðist er á, eru nálægt auga stormsins og það er óhætt að segja að það ríkir einfaldlega mikill ótti um næstu skref. En þetta er nú svona.

Mig langaði að nefna tvennt til viðbótar, annars vegar þessa alþjóðastefnu sem drepið hefur verið á og við höfum farið yfir. Þetta er í annað skipti sem við setjum stefnu, fyrri stefnan var frá 2018–2022 og síðan er verið að setja núna til næstu fjögurra ára og ég held að óhætt sé að segja að ástandið í heiminum hafi haft svolítil áhrif. Það hefur verið mjög mikill fókus á öryggis- og varnarmál og samstarf Norðurlanda þar og stöðu okkar í heiminum, áskoranir og mögulega einhver tækifæri sem fela í sér þéttara norrænt samstarf. Ég held að það sé óhætt að segja að það er mjög mikil samstaða meðal Norðurlanda um þessi mál. Umsókn og líkleg, ætla ég að leyfa mér að segja, innganga Finna og Svía í NATO hefur auðvitað áhrif á þetta en jafnframt eru fulltrúar Norðurlandanna í Norðurlandaráði mjög meðvitaðir um að við verðum að halda okkar norræna samstarfi þéttu, koma fram sem ein heild þar sem hægt er og þar sem við njótum góðs af og getum látið aðra njóta góðs af. Það erum við sem meðal annarra og ekki síst stöndum vörð um lýðræðisleg gildi, frið og mannréttindi og það er okkar að halda þéttum tengslum við þá bandamenn okkar sem halda þessum gildum á lofti líka, annars vegar þá sem þegar hafa þessi gildi í hávegum og hins vegar þjóðirnar sem eru að sækjast eftir því að búa til þannig þjóðfélag. Þarna skiptum við máli. Vissulega er það svo að við erum ekki ein og sér stór og ekki heldur hinar Norðurlandaþjóðirnar en saman erum við býsna sterk. Við erum tæplega 30 milljónir sem gerir okkur öll að 12. fjölmennasta ríki Evrópu og enn þá öflugri þegar tekið er tillit til annarra mælikvarða, fjárhagslegra mælikvarða og slíkt. Við erum því í mjög góðri stöðu til að hafa áhrif.

Í þessari vinnu um alþjóðastefnuna var öryggi á Norðurlöndum og í nærumhverfinu auðvitað mjög mikið ofan á og við settum það markmið að vera lifandi vettvangur fyrir þingumræður um varnar- og öryggismál og að tryggja þessi nærsvæði okkar. Það var líka farið í aðra þætti, heimsskipan sem byggðist á reglum og norræna líkanið. Þetta eru aðrir hlutir sem við viljum annars vegar vernda og hins vegar leyfa öðrum að njóta góðs af bókstaflega. En mig langar til að nefna sérstaklega tvennt sem mögulega í hinu stóra samhengi gætu virst ekki svo mikil grundvallaratriði en sem við héldum á lofti sem fulltrúar Íslands, þurftum ekki að slást um það við hin Norðurlöndin en það var engu að síður þannig að þetta þurfti að minna á, og það er að veita réttindum barna og kvenna og kyn- og frjósemisheilbrigði, réttindum þeirra, málefnum hinsegin fólks, fólks með fötlun og frumbyggjum sérstaklega athygli og síðan það að stuðla að réttindum kvenna og stúlkna til að taka sjálfar ákvörðun um þungunarrof. Þegar ég segi að í stóra samhenginu, bókstaflega lífi og dauða, friði eða stríði, megi vel vera að þetta séu ekki stóru málin, og einhverjir kunna að hrópa það, þá er ég að benda á að hvert sem við lítum í heiminum, hvort sem það eru Bandaríkin eða Rússland, innrás Rússa í Úkraínu, Afganistan eða Íran, þá snýst þetta alltaf um þessi atriði. Þetta eru réttindin sem eru undir. Þannig að vissulega er þetta grunnurinn sem reglur og hið norræna líkan hvílir á og síðan er það sjálfbær þróun á Norðurlöndum og á heimsvísu. Þessi stefna var mjög vel ígrunduð og það var ánægjulegt að sjá hana samþykkta á Íslandi á þemaþinginu okkar í þarsíðustu viku.

Herra forseti. — Nú missti ég fókusinn. Svona er að mæta svo góð með sig að vera ekki með neitt skrifað. Mig langar í lokin að segja frá því að fyrir utan það að vera Íslandsdeild Norðurlandaráðs, af því að hver þjóð mætir með sína þingmannadeild, eru fimm flokkahópar, starfandi pólitískir flokkahópar innan Norðurlanda. Íslenskir þingmenn sitja í einhverjum af þessum flokkahópum og ég naut þess heiðurs, myndi ég vilja segja, í haust. Þar sem þeir þingmenn sem höfðu gegnt stöðu formanns og varaformanns í miðjuflokkahópnum, þar sem Viðreisn ásamt Framsóknarflokki og Flokki fólksins eiga sæti, hurfu af þingi tók ég við tímabundið sem varaformaður. Ég ætla að leyfa mér að skauta aðeins inn í árið 2023 þó svo að við séum að ræða skýrslu síðastliðins árs og segja frá því að ég var á nýliðnu þingi Norðurlandaráðs á Íslandi kjörin formaður þessa flokkahóps. Það er mjög skemmtilegt að fá tækifæri til þess annars vegar að vinna að framgangi Norðurlandasamstarfsins á svona vettvangi en líka að fá tækifæri til að vera rödd Íslendinga inni í þessu samstarfi. Þetta er enn þá meiri vídd. Það er bara sérstaklega gott að finna hve rödd okkar Íslendinga í öllum þeim málefnum sem skipta íbúa Norðurlanda máli er sterk og hvað þingmenn héðan eru margir öflugir. Það er hvergi komið að tómum kofanum hjá þeim. Þeir geta tekið þátt í allri samræðu. Ég trúi því að þetta skipti ekki bara samstarf erlendra landa máli heldur líka það hvernig við þroskum og þróum áfram bæði pólitíska umræðu hér á landi og bara samfélagið okkar. Við getum sannarlega lært ýmislegt af okkar ágætu nágrönnum á Norðurlöndum á sama tíma og það er sitthvað sem við getum kennt þeim.